NÝLEG rannsókn bandarískra vísindamanna bendir til þess að fyrirbænir geti dregið úr líkunum á fylgikvillum um 10%, að því er fram kemur í tímaritinu Archives of Internal Medicine.

NÝLEG rannsókn bandarískra vísindamanna bendir til þess að fyrirbænir geti dregið úr líkunum á fylgikvillum um 10%, að því er fram kemur í tímaritinu Archives of Internal Medicine.

"Þetta á sér hugsanlega eðlilegar skýringar sem við skiljum ekki enn," sagði einn vísindamannanna, William S. Harris, en bætti við að ef til vill hefðu einhvers konar yfirnáttúrleg öfl verið að verki.

Sérfræðingar í hjartasjúkdómum við St. Luke's Hospital í Kansas rannsökuðu 990 hjartasjúklinga, sem gengust undir meðferð á sjúkrahúsinu, og skiptu þeim í tvo hópa. Sjálfboðaliðar voru fengnir til að biðja fyrir sjúklingunum í öðrum hópanna daglega. Sjúklingarnir vissu ekki af fyrirbænunum.

Árangursrík viðbót

Eftir mánuð höfðu þessi hópur fengið 10% færri fylgikvilla, svo sem hjartastopp eða verki fyrir brjósti, en hinn hópurinn.

Harris sagði rannsóknina benda til þess að fyrirbænir gætu verið árangursrík viðbót við venjulegar læknisaðgerðir en viðurkenndi að hún hefði nokkra annmarka. T.a.m. væri líklegt að ættingjar og vinir margra sjúklinga í viðmiðunarhópnum hefðu einnig beðið fyrir þeim.

Herbert Benson, læknisfræðiprófessor við Harvard-háskóla, sagði að rannsóknin gæti ekki talist sönnun fyrir mætti bænarinnar því vísindamennirnir hefðu beitt vafasömum aðferðum við matið á fylgikvillunum. Önnur rannsókn hefði hins vegar leitt í ljós að sjúklingum, sem trúa á guð og mátt bænarinnar, vegni yfirleitt betur en öðrum.