BANDARÍSK börn eyða meiri tíma í sjónvarpsgláp og tölvuleiki en nokkuð annað, fyrir utan svefn. Margir telja að sjónvarpið sé ennfremur það sem mestu veldur um þá miklu aukningu sem orðið hefur á offitutilfellum meðal barna og unglinga.

BANDARÍSK börn eyða meiri tíma í sjónvarpsgláp og tölvuleiki en nokkuð annað, fyrir utan svefn. Margir telja að sjónvarpið sé ennfremur það sem mestu veldur um þá miklu aukningu sem orðið hefur á offitutilfellum meðal barna og unglinga. Rannsókn sem gerð var við Stanfordháskóla í Bandaríkjunum er fyrsta tilraunin sem gerð hefur verið til að finna bein tengsl á milli sjónvarpsáhorfs og líkamsþyngdar. Rannsóknin var birt í Journal of the American Medical Association (www.jama.com) 27. október. Börn í þriðja og fjórða bekk í tveim barnaskólum tóku þátt í tilrauninni. Nemendum í öðrum skólanum var kennt að draga úr þeim tíma sem þeir eyddu fyrir framan sjónvarpið, en nemendurnir í hinum skólanum horfðu á sjónvarp og léku sér í tölvuleikjum eins og venjulega. Í ljós kom, að meðal barnanna sem kennt var að horfa minna, dró umtalsvert úr tilfellum offitu samkvæmt nokkrum mælikvörðum. Tveir tímar á dag of mikið

"Eitt af því sem gerir þessa rannsókn sérstaka er að hún miðaðist sérstaklega við minnkað sjónvarpsáhorf og minni tölvuleiki, án þess að eitthvað annað kæmi í staðinn," sagði dr. Thomas Robinson, sérfræðingur í barnalækningum við læknadeild Stanford. "Þess vegna gátum við mælt sérstaklega áhrif þessara þátta eingöngu."

Robert DuRant, prófessor við læknadeild Wake Forest háskóla í Bandaríkjunum, kveðst telja að tveir tímar á dag, sem Samtök bandarískra barnalækna telja viðunandi, séu of langur tími fyrir börn að horfa á sjónvarp. Robinson er nú að endurtaka tilraunina í umfangsmeiri rannsókn í tólf barnaskólum.