ÁKVEÐIÐ hefur verið að reisa á Hellissandi minnisvarðann Beðið í von.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að reisa á Hellissandi minnisvarðann Beðið í von. Minnisvarðinn verður afhjúpaður á sjómannadag árið 2000 en hann er reistur til minningar um árabátaútveg liðinna alda, sjósókn á litlum vélbátum frá Krossvík og þá sjómenn er drukknuðu við að afla lífsviðurværis.

Í vondum veðrum er bátar voru á sjó hópuðust konur og börn út á Bakka þar sem þau báðu og vonuðu að ástvinir þeirra kæmust heilir í land með björg í bú. Nú hyggjast Sandarar reisa þessu fólki minnisvarða.

Til að standa undir kostnaði við gerð verksins hefur Sjómannadagsráð gefið út sérstakt styrktarkort með mynd af minnisvarðanum á væntanlegum stað. Verkið er eftir Grím Marinó Steindórsson. Tíu kort kosta fimm þúsund krónur. Kortin verða til sölu á eftirtöldum stöðum: Melabúðinni, Hagamel 39, Nóatúni, Nóatúni 17, fiskbúðinni Hafrúnu, Skipholti 70, fasteignasölunni Valhöll, Síðumúla 27 og í versluninni Blómsturvellir, Hellissandi.