UPPLÝSINGAÞJÓNUSTA landbúnaðarins hefur ákveðið að gangast fyrir stórri landbúnaðarsýningu í Laugardalnum í Reykjavík 6. til 9. júlí nk. Markmið sýningarinnar er m.a.

UPPLÝSINGAÞJÓNUSTA landbúnaðarins hefur ákveðið að gangast fyrir stórri landbúnaðarsýningu í Laugardalnum í Reykjavík 6. til 9. júlí nk. Markmið sýningarinnar er m.a. að varpa ljósi á mikilvægi landbúnaðar í nútímaþjóðfélagi og glæða skilning þéttbýlisbúa á hlutverki hans í vexti og velferð íslensks samfélags.

Að sögn Ara Teitssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, má gera ráð fyrir því að allt að eitt þúsund aðilar taki þátt í sýningunni. Á sama tíma er ráðgert að halda Landsmót hestamanna í Víðidal í Reykjavík og er stefnt að víðtækri samvinnu milli þessara tveggja viðburða. Til dæmis kemur til greina að bjóða upp á reglulegar ökuferðir milli Laugardals og Víðidals, þannig að gestir geti jöfnum höndum sótt báðar sýningarnar á sama aðgöngumiða.

Landbúnaðarsýningin var kynnt á blaðamannafundi í vikunni og sagði Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, m.a. við það tækifæri að við aldamót væri eðlilegt að menn stöldruðu við, litu til baka og veltu fyrir sér og sýndu hvernig til hefði tekist í íslenskum landbúnaði í fortíðinni og skyggndust sömuleiðis til framtíðar. "Þá viljum við með sýningunni efla tengsl milli dreifbýlis og þéttbýlis og sýna þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu hvað við erum að gera og fá þá til þess að skilja hvað við erum að gera," sagði Ari ennfremur. Að auki þykir við hæfi að halda sýninguna í Reykjavík, þar sem Reykjavík verður ein af menningarborgum ársins 2000. Með sýningunni er á þann hátt verið að hjálpa til við að láta Reykjavík sem menningarborg standa undir því nafni.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði m.a. á blaðamannafundinum að það væri fagnaðarefni að landbúnaðarsýningin skyldi haldin um leið og Landsmót hestamanna. "Það mun þýða að aðsókn að þessari sýningu verður meiri, ekki síst kannski erlendra gesta, því það hefur legið fyrir að Landsmótin sækja þrjú til fjögur þúsund erlendir gestir. Kannski verða þeir enn þá fleiri sem sækja Landsmót hestamanna hér í vor, eða það vona ég."