SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra segir að tæknilegri umræðu um íslensku tillöguna í alþjóðlegum viðræðum um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sé lokið og nú sé hún orðin pólitískt ákvörðunarefni. Siv segir að íslenska sendinefndin hafi kynnt íslensku tillöguna mjög vel og flestum tæknispurningum hafi verið svarað. Umræðan sé komin á pólitískan vettvang.

Fundi umhverfisráðherra á 5. aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar lauk á fimmtudag. Á fundinum, sem haldinn var í Bonn í Þýskalandi, voru staddir umhverfisráðherrar frá 173 ríkjum. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra var þar á meðal og átti hún meðal annars fund með umhverfisráðherra Hollands.

Ræddi við John Prescott

"Ég átti mjög gagnlegan fund með Jan Pronk, umhverfisráðherra Hollands, en hann verður forseti 6. aðildarríkjaráðstefnunnar sem haldin verður að ári. Þessi fundur, og eins fundurinn sem ég átti með umhverfisráðherra Póllands sem er forseti ráðstefnunnar hér í Bonn, voru báðir mjög gagnlegir. Það er mjög mikilvægt að þeir sem stýra ferlinu og hafa yfirumsjón með ráðstefnunum séu upplýstir um okkar sjónarmið og okkar sérstöðu," sagði Siv í samtali við Morgunblaðið.

Siv gerði jafnframt John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Breta og umhverfisráðherra, og Anderson, umhverfisráðherra Kanada, grein fyrir sérstöðu Íslands. Hún segir enn of snemmt að draga ályktanir um hvernig tillagan verður afgreidd á 6. aðildarríkjafundinum að ári.

"Okkar sérstaða var viðurkennd í Kyoto með ákveðinni bókun. Það er hin praktíska útfærsla sem er eftir og hana erum við að ræða við þessa aðila. Á fundinum í Kyoto var samþykkt að taka bæri tillit til stórra verkefna í litlum hagkerfum. Útfærslan sem við höfum lagt til er að ríki, sem eru með það litla losun að hún er undir 0,015% af losun í heiminum, falli undir ákvæðið," sagði Siv.

Tillagan felst í að þau lönd sem falla undir framangreint, og eru með einstök verkefni sem hafa í för með sér innan við 5% af losun innan viðkomandi lands verði undanþegin Kyoto-bókuninni. Gert er jafnframt ráð fyrir að notuð sé fullkomnasta tækni og bestu aðferðir í þau verkefni, að sögn Sivjar.