"Þessi úrslit þurftu svo sem ekki að koma á óvart, þeir voru á tánum en við á hælunum og það gengur ekki gegn Keflvíkingum þegar þeir eru í ham," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari og leikmaður Hamars frá Hveragerði, eftir að lið hans hafði verið...

"Þessi úrslit þurftu svo sem ekki að koma á óvart, þeir voru á tánum en við á hælunum og það gengur ekki gegn Keflvíkingum þegar þeir eru í ham," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari og leikmaður Hamars frá Hveragerði, eftir að lið hans hafði verið rótburstað af baráttuglöðu liði Keflvíkinga í Keflavík í gærkvöldi. Lokatölur urðu 124:66 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 63:31. Allt annar bragur var á Keflvíkingum í þessum leik en í þremur síðustu leikjum sem allir hafa tapast og í slíkum ham eru þeir ekki árennilegir.

Keflvíkingar tóku vel á móti nýliðunum og afhentu þeim blóm fyrir leikinn í tilefni dagsins þar sem Hamar var að leika sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni í Keflavík. Hvergerðingar settu síðan fyrstu stigin í leiknum en lengra náði gestrisni Keflvíkinga ekki. Þeir tóku öll völd á vellinum, settu 20 stig í röð, og gáfu gestunum forsmekkinn að því sem koma skyldi. Keflvíkingar voru ákaflega grimmir hvort heldur var í vörn eða sókn og Hamarsmenn fundu aldrei svar við góðum leik heimamanna. Munurinn jókst síðan jafnt og þétt allt til loka leiksins. "Þetta eru úrslit sem maður átti von á og staða okkar í deildinni gefur ef til vill ekki alveg rétta mynd af getunni. Liðin keppa að ólíkum markmiðum, þeir að ná einu af efst sætunum inn í úrslitakeppnina, en við að ná sæti í henni. Nú er bara að taka sig saman í andlitinu og einbeita sér að næsta leik," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari og leikmaður Hamars ennfremur. "Núna lékum við eins og lið og þá var ekki að sökum að spyrja og ég get ekki annað en verið ánægður með leik minna manna sem allir léku vel í kvöld," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga.

Lið Keflvíkinga var afar jafnt og allir léku vel. Chinati Roberts lék vel, Kristján Guðlaugsson var heitur í þriggja stiga skotunum og Davíð Jónsson stóð sig einnig mjög vel. Hvergerðingar náðu ekki að sýna sínar betri hliðar að þessu sinni og hjá þeim bar mest á Skarphéðni Ingasyni og Rodney Dean.

Gísli Blöndal skrifar