Þórsarar tóku á móti KR án Bandaríkjamanns og velgdu Vesturbæingum undir uggum í fyrri hálfleik en hófu síðan seinni hálfleik með slíkum ósköpum að KR-ingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigrinum.

Þórsarar tóku á móti KR án Bandaríkjamanns og velgdu Vesturbæingum undir uggum í fyrri hálfleik en hófu síðan seinni hálfleik með slíkum ósköpum að KR-ingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigrinum. Lokatölur urðu 82:100 og er lið Þórs enn á botni deildarinnar en KR þokar sér nær efstu liðum.

Leikmenn KR skoruðu fyrstu sjö stigin í leiknum en síðan tóku ungu strákarnir í Þór til sinna ráða og liðið lék sennilega sinn besta hálfleik í vetur. Leikurinn var í járnum upp í stöðuna 40:40 en gestirnir skriðu þá yfir og staðan í leikhléi var 41:46. Lið Þórs lék skínandi vel og leikmenn lögðu sig fram og virtust njóta þess að vera lausir við Herman Myers sem var dragbítur á liðinu en ekki hjálparhella. Ef Maurice Spillers reynist betur en forverar hans ættu Þórsarar að fara að hala inn stig.

Allt fór úrskeiðis hjá Þór í upphafi seinni hálfleiks meðan KR-ingar blómstruðu. Þeir skoruðu tólf stig í röð og breyttu stöðunni í 41:58 með fjölbreyttum sóknarleik og ágengri vörn. Sóknir Þórs voru fádæma endasleppar á þessu tímabili og liðið átti aldrei möguleika gegn frískum KR-ingum.

Jesper Sörensen lék mjög vel í liði KR, Keith Vassel skoraði grimmt í fyrri hálfleik og Jónatan Bow var drjúgur og lék vel í seinni hálfleik, sem og Steinar Kaldal og Ólafur Ægisson. Hjá Þór voru Óðinn Ásgeirsson og Einar Örn Aðalsteinsson bestir og raunar þeir einu sem sýndu einhvern lit í seinni hálfleik og skoruðu þá meira en helming stiga liðsins. Bakverðirnir höfðu hægt um sig en Sigurður Sigurðsson er að komast í gang eftir erfið meiðsl og verður liðinu styrkur í baráttunni framundan.

Stefán Þór Sæmundsson skrifar