Höfundur: Jane Wagner. Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjóri: María Sigurðardóttir. Leikmyndar- og búningahönnuður: Elín Edda Árnadóttir. Ljósahönnuður: Lárus Björnsson. Hljóðhönnuður: Baldur Már Arngrímsson. Leikari: Edda Björgvinsdóttir. Föstudagur 5. nóvember.

ÞESSI einleikur er ættaður af Broadway. Hann var skrifaður fyrir leikkonuna Lily Tomlin, sem er ein þekktasta gamanleikkona Bandaríkjanna og fræg bæði fyrir sviðs- og kvikmyndaleik. Verkið er að sjálfsögðu skrifað með aðstæður þar í landi í huga. Í verkinu koma fram nítján persónur. Hver og ein þessara persóna hefur sín einkenni. Það er skipt hratt á milli hlutverka og skotist fram og til baka í tíma og rúmi.

Veikleiki uppsetningarinnar á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu felst í öllum ofangreindum atriðum og hve illa verkið fellur að íslenskum aðstæðum. Gísli Rúnar Jónsson þýðandi dettur oft niður á snilldarlausnir í þýðingu og á stundum - sérstaklega í seinni hlutanum - tekst staðfæringin vel. Aftur á móti eru ótal staðir í textanum þar sem aðstæður í bandarískri stórborg eiga ekki við hér á landi - seint verður hægt að gera Hlemm að Times Square; heimilislausar pokakonur eru ekki menningarfyrirbæri sem Íslendingar tengja við Laugaveginn. Hinn bandaríski hippakúltúr og eftirhreytur hans urðu ekki að fjöldahreyfingu á Íslandi.

Hinar fjölmörgu persónur krefjast ótrúlegrar einbeitingar, hugmyndaauðgi og skipulags af leikstjóra og leikara. Í þessari uppsetningu eru persónurnar ekki dregnar nógu skýrum dráttum til að það sé ljóst hvaða hlutverk Edda er að leika hverju sinni. Það er á fárra leikara færi að hafa á takteinum nítján afgerandi ólíkar persónur og að geta skipt milli þeirra á örskotsstundu þannig að áhorfendur viti alltaf hver eigi orðið. Hérna hefði hjálpað að nota eitthvað búningakyns sem tákn fyrir hvert eitt hlutverk en sú ákvörðun var tekin að nota í nær öllu verkinu sama búninginn eins og í frumuppfærslunni. Í þessu felst meginbrotalöm þessarar sýningar. Áhorfendur áttu erfitt með að gera greinarmun á persónunum og fullt í fangi með að fylgja flóknum ferðum fram og aftur í tíma. Atriði sem áttu samkvæmt textanum að gerast hér á landi stönguðust á við íslenskan veruleika. Í verkinu minnist ein persónan á að hún hafi losnað undan kúgun raunveruleikans; sýningin hér og hinar séramerísku aðstæður eru þvert á móti kúguð af íslenskum raunveruleika.

Aftur á móti er margt vel gert í þessari sýningu. Aðalbúningur Eddu er einfaldur og smekklegur og sviðsmyndin þjál og stílhrein. Búningurinn í upphafsatriðinu gefur hins vegar vísbendingu um það sem hefði getað orðið. Ljósin eru oft mjög skemmtilega notuð en hljóðmyndin treystir um of á erlendar hljóðupptökur og sama tónlistin er of mikið notuð.

Edda á hér góða spretti, oft í kómík en á stundum sýnir hún á sér sjaldséða hlið og sökkvir sér í dramatíkina. Hún hefði þurft mun styrkari og hugvitsamlegri leikstjórn til að sýningin næði tilgangi sínum.

Sveinn Haraldsson