VARAFORMAÐUR rússneska herráðsins sagði í gær að átökin í Tsjetsjníu gætu dregist fram á næsta ár, og skildu stjórmálaskýrendur ummæli hans á þann veg að Rússar myndu ekki láta undan alþjóðlegum þrýstingi um að hefja friðarviðræður við stjórnvöld í Tsjetsjníu.

Mikill fjöldi rússneskra hermanna hefur nú tekið sér stöðu við borgarmörk Grosní, höfuðborgar Tsjetsjníu, en samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar eru ráðamenn í Moskvu ekki á eitt sáttir um hvort ráðast eigi til atlögu. Stór hluti íbúanna hefur lagt á flótta og skæruliðar hafa grafið skurði um alla borgina til að búa sig undir götubardaga, á borð við þá sem urðu þúsundum manna að bana í stríðinu við Rússa 1994-1996.

Flóttamannastraumurinn frá Tsjetsjníu til nágrannahéraðsins Ingúsetíu eykst stöðugt, og talið er að um 10.000 manns hafi farið yfir landamærin síðustu tvo daga. Talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sagði í gær að enn væri um sjö kílómetra löng röð flóttamanna við landamærin, og að viðbúið væri að um 200 þúsund flóttamenn þyrftu að hafast við í tjöldum í Ingúsetíu yfir veturinn.

"Heilagt stríð eina úrræðið"

Skæruliðaforinginn Shamil Basajev sagði í viðtali á fimmtudag að Tsjetsjenar ættu einskis annars úrkosti en að heyja heilagt stríð gegn Rússum. "Við höfum reynt allar friðsamlegar leiðir, en þær hafa engu skilað, og heilagt stríð er eina úrræðið sem eftir er til að leiða Tsjetsjníu-deiluna til lykta," sagði Basajev í símaviðtali við sjónvarpsstöð í Quatar.

Valerí Manilov, varaformaður rússneska herráðsins, sagði í gær að 162 rússneskir hermenn og um 3.500 tjsetsjenskir skæruliðar hefðu fallið síðan Rússar hófu loftárásir á Tsjetsjníu í byrjun september. Yfirvöld í Tsjetsjníu tilkynntu jafnframt að 3.200 tsjetsjenskir borgarar hefðu látið lífið í átökunum.