ÓEINING innan vinstristjórnarinnar og sterk staða Alþýðubandalagsins varð til þess að ekki var samið við Breta þegar árið 1958 fljótlega eftir útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í tólf mílur.

ÓEINING innan vinstristjórnarinnar og sterk staða Alþýðubandalagsins varð til þess að ekki var samið við Breta þegar árið 1958 fljótlega eftir útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í tólf mílur. Þegar samningur Íslendinga og Breta þess efnis var loks undirritaður í mars 1961 var hann í megindráttum samhljóða því sem ráðherrar Alþýðuflokks og Framsóknarflokks voru orðnir ásáttir um sem samningsgrundvöll síðsumars 1958. Þetta kemur fram í bókinni Saga landhelgismálsins eftir Davíð Ólafsson, sem kom út í gær. Þar kemur ennfremur fram að sterk staða Íslands innan NATO hafi verið ein helsta skýringin á góðum árangri Íslendinga á hafréttarráðstefnum Sameinuðu þjóðanna í Genf 1958 og 1960.

Bókin er ítarlegasta ritið sem út hefur komið hér á landi um baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr þremur mílum í tólf mílur árið 1958. Það var fyrsti áfanginn á langri för sem leiddi til þess að Bretar sendu herskipaflota sinn inn í íslenska lögsögu og markaði það upphaf þorskastríðsins.

Höfundur bókarinnar, Davíð heitinn Ólafsson, var fiskimálastjóri á þessum árum og einn helsti samningamaður Íslands í landhelgismálinu. Að loknum starfsferli sínum gat Davíð, sem síðast var seðlabankastjóri, einbeitt sér að söfnun og úrvinnslu gagna um sögu landhelgismálsins innanlands og utan. Í bókinni er greint frá fjölmörgum persónulegum minningum hans af gangi mála og samtölum við erlenda embættismenn og ráðherra. Þá eru birt leyndarskjöl og gögn sem ekki hafa áður komið fyrir almennings sjónir.

Davíð hafði gengið frá frumgerð handritsins þegar hann lést í júní 1995, en ekki fært það í þann endanlega búning sem hann vildi. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands tók að sér að búa handritið til prentunar og réð Sumarliða R. Ísleifsson sagnfræðing til verksins. Hann bjó ritið til prentunar í samráði við ritnefnd og fjölskyldu höfundarins.