SKÆRULIÐASVEITIR Tamíla á Sri Lanka náðu þremur mikilvægum herstöðvum á sitt vald í gær eftir harða bardaga í norðurhluta eyjunnar. Hermt er að rúmlega 1.000 stjórnarhermenn og skæruliðar hafi fallið í bardögunum síðustu daga.

Hersveitir stjórnarinnar voru fluttar frá bænum Mankulam, 310 km norður af Colombo, höfuðborg landsins, eftir skæðar árásarhrinur tamílsku Tígranna, sem berjast fyrir sjálfstæðu ríki Tamíla í norður- og austurhluta eyjunnar.

Tamílsku tígrarnir lögðu undir sig tvo aðra bæi, Olumadu og Karuppaddamurippu, og endurheimtu stórt landsvæði sem stjórnarherinn náði á sitt vald í blóðugri stórsókn fyrir rúmu ári.

Fall Mankulam er talið mikið áfall fyrir stjórnarherinn, sem missti þrjár aðrar mikilvægar herstöðvar á þriðjudag og miðvikudag. Mankulam var nyrsti bærinn á valdi stjórnarhersins við mikilvægan þjóðveg sem hann reyndi að ná á sitt vald í sókn sem hófst í maí 1997 og lauk í desember á síðasta ári án þess að herinn næði markmiði sínu.

Áfall fyrir forsetann

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Sri Lanka, Sameinaði þjóðarflokkurinn, kenndi stjórn Chandrika Kumaratunga forseta um ófarir hersins og sagði að hún hefði átt upptökin að bardögunum. Talið er að hrakfarir hersins minnki líkurnar á því að Kumaratunga nái endurkjöri í forsetakosningunum í næsta mánuði.

Rúmlega 55.000 manns hafa fallið í átökum stjórnarhersins og tamílsku aðskilnaðarsinnanna síðustu 27 árin.