SAMANLAGÐUR halli sveitarfélaganna í landinu er áætlaður tæpir 2,7 milljarðar króna í ár og kemur til viðbótar 4,2 milljarða króna halla í fyrra.

SAMANLAGÐUR halli sveitarfélaganna í landinu er áætlaður tæpir 2,7 milljarðar króna í ár og kemur til viðbótar 4,2 milljarða króna halla í fyrra. Samanlögð skuldaaukning á þessum tveimur árum nemur þannig tæpum 7 milljörðum króna, þó tekjur sveitarfélaga á sama tímabili hafi vaxið um 11,5 milljarða króna, eða úr 48,2 milljörðum króna árið 1997 í tæpar 59,8 milljarða króna í ár samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar. Stærstur hluti þessarar tekjuaukningar stafar af auknum tekjum af útsvari, eða rúmir 10 milljarðar króna, sem að langmestu leyti má rekja til aukinna umsvifa og hærri launa í þjóðfélaginu.

Útgjöld sveitarfélaganna hafa aukist verulega á undanförnum árum. Langstærstur hluti útgjaldanna er vegna félagslegrar þjónustu, eða 72%. Þar af vega fræðslumálin langþyngst, en nærfellt þriðjungur af útgjöldum sveitarfélaganna er vegna þeirra. Það hlutfall hefur farið stöðugt hækkandi á undanförnum árum, svo sem vænta mátti í kjölfarið á yfirfærslu grunnskólans. Rúmlega 19,4 milljörðum króna var varið til fræðslumála á árinu 1998 og var það tæpum þremur milljörðum króna hærri upphæð en varið var til þessa málaflokks árið á undan. Ekki eru handbærar upplýsingar um áætlaða útkomu í ár.

Almannatryggingar og velferðarmál taka til sín næstmest fjármagn, eða 17,9% af heildinni á árinu 1998. Samanlagt var tæplega 10,7 milljörðum króna varið til þessa málaflokks á árinu 1998, 1,5 milljarði kr. meira en á árinu 1997 og rúmlega 2,4 milljörðum kr. hærri upphæð en á árinu 1996.

Mest útgjaldaaukning hjá minnstu sveitarfélögunum

Milli áranna 1997 og 1998 var útgjaldahækkunin mest hjá sveitarfélögum með færri en 400 íbúa, eða um 17,4% að raungildi, en minnst var hún á íbúa í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 8,0% að raungildi. Hins vegar voru útgjöldin hæst á íbúa í sveitarfélögum með 400-999 íbúa fjórða árið í röð, eða 287 þúsund kr., sem er 16,1% yfir landsmeðaltali.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að meginskýringin á halla sveitarfélaganna sé að þau hafi ekki fengið tekjustofna í sinn hlut í samræmi við þau fjölbreyttu verkefni sem þeim væri ætlað að sinna.