ÖGULEIKAR tölvunnar við kennslu eru sennilega langt frá því að vera fullnýttir.

ÖGULEIKAR tölvunnar við kennslu eru sennilega langt frá því að vera fullnýttir. Eins og fjarkennslan er gott dæmi um getur þetta tæki hins vegar verið til gríðarlegrar hagræðingar og sparnaðar, auk þess að opna einstaklingum sem annars ættu ekki kost á námi ný tækifæri. Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá einum þeirra möguleika sem tæknin býður upp á en hefur ekki verið nýtt nema að mjög litlu leyti hér á landi. Í Svíþjóð hafa sérstök málþjálfunarforrit verið notuð með góðum árangri til þess að endurhæfa þá sem hafa orðið fyrir málstoli, til dæmis í kjölfar heilablóðfalls. Algengasta forritið sem notað er fyrir málstolssjúklinga nefnist Lexia og með því er hægt að þjálfa undirstöðuatriði þess tungumáls sem tapaðist að hluta til eða öllu leyti við heilaslagið. Er þetta forrit einnig notað fyrir nemendur sem þjást af málstoli sem og dyslexíu. Markmiðið með forritinu er fyrst og fremst að auka þann tíma sem þjálfunin varir og bæta þannig árangur endurhæfingarinnar. Það á að hæfa öllum sem þjást af dyslexíu, máltengdum námserfiðleikum eða málstoli án tillits til aldurs.

Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins hefur tækni sem þessi ekki verið notuð hér á landi nema í mjög litlum mæli. Að sögn Þóru Sæunnar Úlfsdóttur, talmeinafræðings hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, er ástæðan fyrst og fremst sú að meðferðaraðilar hafa ekki aðgang að nægilega mörgum forritum en einnig sú að meðalaldur fólks sem þjáist af málstoli er 74 ár og sá aldurshópur er ekki vanur því að vinna með tölvur. Þóra bendir þó á að þrátt fyrir að um svo fullorðið fólk sé að ræða skorti ef til vill ekki á áhugann hjá fólki, heldur fyrst og fremst að geta boðið því upp á forrit við sitt hæfi.

Um hundrað manns á ári hverju eru stolin máli sínu hér á landi vegna heilablóðfalls og fjölmargir nemendur í skólum landsins eiga við dyslexíu að stríða. Af reynslu Svía að dæma getur tölvan komið að verulegu gagni í baráttunni við þessa sjúkdóma. Það er ástæða til að yfirvöld heilbrigðis- og menntamála hérlendis kanni hvort þeir möguleikar sem tölvan býður upp á geti ekki einnig komið að gagni hér.

FISKELDI Í SÓKN

EIRI BJARTSÝNI gætir um framtíðarhorfur fiskeldis á Íslandi en verið hefur um skeið. Er því spáð, að verðmæti eldisafurða geti numið sex milljörðum króna eftir tíu ár. Ástæðuna fyrir breyttri afstöðu til fiskeldis hér á landi má rekja til þess, að þau laxeldisfyrirtæki, sem eftir eru í landinu eftir áföll fyrri ára, telja sig hafa náð betri tökum á eldinu, svo og góður árangur í bleikjueldi og lúðueldi, auk þess sem eldi sæeyra lofar góðu. Þetta kom fram á ráðstefnu um miðja vikuna um framtíðarsýn og stefnumótun í fiskeldi hér á landi.

Framkvæmdastjóri Stofnfisks upplýsti á ráðstefnunni, að áætluð framleiðsla hér á landi á eldislaxi í ár sé 4.340 tonn. Heildarframleiðsla á eldislaxi í heiminum sé áætluð 850-900 þúsund tonn og sé orðin meiri en á villtum laxi. Hún verði um 2 milljónir tonna árið 2010, en 2,7 milljónir tonna með villtum laxi. Áætlað sé að það ár muni strandeldi hér geta numið níu þúsund tonnum. Ólafur Wernersson hjá Íslandslaxi sagði, að fiskeldismenn hefðu lært mikið á undanförnum árum og væru nú að ná betri tökum á rekstri og afköstum. Hann benti og á, að fiskeldi á Íslandi hafi búið við aðrar aðstæður en fiskeldi í samkeppnislöndum, m.a. kostnaðarauka vegna landfræðilegrar stöðu.

Bleikjueldi hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Framleiðslan nam tíu tonnum árið 1989, en var komin í 680 tonn á síðasta ári og var verðmæti útfluttra bleikjuafurða þá 224 milljónir króna. Í ár er gert ráð fyrir 900-1.000 tonna framleiðslu, eða 60% af heimsframleiðslunni, og verði 1.500 tonn árið 2001 að verðmæti um 450 milljónir. Benedikt Kristjánsson hjá Silfurstjörnunni telur Íslendinga eiga bjarta framtíð í bleikjueldi haldi þeir því forskoti, sem þeir hafa náð nú.

Það er ánægjulegt, að íslenzku fiskeldi er tekið að vaxa fiskur um hrygg, því áföll og gjaldþrot fyrri ára hafa vafalaust dregið kjark úr fjárfestum. Hins vegar hefur hópur áhugamanna haft mikla trú á framtíð fiskeldis og verður ekki betur séð, en að þrautseigja þeirra ætli að tryggja, að Íslendingar verði ekki utan gátta í þeirri stórstígu þróun, sem orðin er í fiskeldi víða um heim. Því er spáð, að árið 2010 muni 35% af heildarframboði á fiski á heimsmarkaði koma úr eldi. Það er því mikilvægt, að Íslendingar verði þátttakendur í þessari þróun til að vera samkeppnisfærir í útflutningi fiskafurða.