FREKARI vaxtahækkanir í Bandaríkjunum þykja ólíklegri eftir að ýmsar hagtölur voru birtar í Bandaríkjunum kynntar í gær. Verðbólguhætta virðist minni þar í landi og m.a.

FREKARI vaxtahækkanir í Bandaríkjunum þykja ólíklegri eftir að ýmsar hagtölur voru birtar í Bandaríkjunum kynntar í gær. Verðbólguhætta virðist minni þar í landi og m.a. hækkaði dollarinn gagnvart evru og í 106,44 gagnvart jeni í gær sem er það hæsta í tólf daga. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er nú hið minnsta í 30 ár, eða 4,1%. Seðlabankastjórinn Alan Greenspan hefur lýst því yfir að hann muni fylgjast vel með vinnumarkaðnum vegna verðbólguhættu.

FTSE 100 vísitalan í London hækkaði um 0,4% í 6.356,6 stig í gær. Áður hafði hún farið hærra. DAX í Frankfurt hækkaði einnig um 0,4% og var við lok viðskipta 5.6568,1 stig sem er það hæsta í ár. CAC-40 vísitalan í París hækkaði líka í gær og setti met sjötta daginn í röð. Í lok gærdagsins stóð hún í 4.975,9 stigum.

Hlutabréf lyfjafyrirtækja voru enn vinsæl í gær en orsökin var 80 milljarða dala tilboð Pfizer í Warner-Lambert en samruni Warner-Lambert og American Home Products stendur fyrir dyrum. Fjárfestar hafa einnig velt vöngum yfir hugsanlegum samruna lyfjafyrirtækjanna Glaxo Wellcome og SmithKline Beecham. Hlutabréf í SmithKline hækkuðu um 8,5% í gær.

Hlutabréf í þýska fjarskiptafélaginu Mannesmann hækkuðu um 8,5% í gær en rætt hefur verið um hugsanlegan samruna þess við Vodafone eða France Telecom. Hlutabréf í Vodafone hækkuðu einnig í gær um 5%.