Í DAG kemur út hjá Mál og menningu bókin Í róti hugans, saga af æði og örvæntingu, eftir dr. Kay Redfield Jamison, prófessor í sálfræði við John Hopkins-háskólann í Washington DC í Bandaríkjunum.

Í DAG kemur út hjá Mál og menningu bókin Í róti hugans, saga af æði og örvæntingu, eftir dr. Kay Redfield Jamison, prófessor í sálfræði við John Hopkins-háskólann í Washington DC í Bandaríkjunum. Bók þessi vakti heimsathygli, þegar hún kom fyrst út á árinu 1995, en hún nefnist á frummálinu: "An unquiet mind - a memoir of moods and madness." Í bókinni lýsir höfundur eigin baráttu við geðhvarfasýki, þ.e. þunglyndi og oflæti (maníu) í þrjátíu ár. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála þ.á m. flest ef ekki öll Norðurlandamál.

Í samtali við Morgunblaðið í gær lýsti dr. Kay Redfield Jamison sérstakri ánægju yfir því, að bók hennar væri komin út á íslenzku. Hún kvaðst vera mjög hamingjusöm yfir því og fyrir því væru margar ástæður. Hún þekkti til hinnar sterku bókmenntahefðar Íslendinga og Íslendingasagna og lýsti von um að hún gæti heimsótt Ísland á næsta ári.

Bæði Geðlæknafélag Íslands og Geðverndarfélagið hafa boðið dr. Kay Redfield Jamison að koma hingað til lands til fyrirlestrahalds en íslenzkir geðlæknar hafa hlýtt á fyrirlestra hennar á læknaþingum erlendis. Þá hafa Íslenzk erfðagreining og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Mál og menningu leitað eftir því að hún haldi fyrirlestur á námskeiði á vegum þessara aðila um geðsjúkdóma.

Áður en bókin Í róti hugans kom út fyrir fjórum árum hafði höfundur skrifað tvær bækur. Önnur er mikið ritverk, sem hún skrifaði ásamt öðum höfundi um geðhvarfasýki, sem notuð er sem ein helzta kennslubók í þeim fræðum í háskólum víða um heim. Hin nefnist "Touched with fire" eða Snert af eldi, sem er tilvitnun í ljóð eftir Stephen Spender en sú bók byggir á rannsóknum dr. Jamison á snilligáfu fjölmargra listamanna, sem hafa þjáðst af geðhvarfasýki og lýsir tengslunum á milli snilligáfu þeirra og sjúkdómsins. Fyrir mánuði kom svo út ný bók eftir hana, sem fjallar um sjálfsvíg og hefur þegar vakið athygli vestan hafs og var til umfjöllunar fyrir skömmu í sjónvarpsþættinum 60 mínútur. Kay Redfield Jamison kom einnig fram í þáttunum Í fjötrum þunglyndis, sem sýndir voru á Stöð 2 í lok október sl. og nú í byrjun nóvember.

Þýðandi bókarinnar Í róti hugans er Guðrún Finnbogadóttir.