50 UNGMENNI frá löndunum í kringum Eystrasaltið eru nú stödd hér á landi til þess að keppa í stærðfræði sín á milli.

50 UNGMENNI frá löndunum í kringum Eystrasaltið eru nú stödd hér á landi til þess að keppa í stærðfræði sín á milli. Undirbúningur að keppninni hefur staðið á annað ár, en hann hefur hvílt á herðum félaga í Íslenska stærðfræðafélaginu og Félagi raungreinakennara í framhaldsskólum og segja aðstandendur að Ísland tefli nú fram harðsnúnu liði. Keppnin fer þannig fram að lið fimm ungmenna frá hverju landi reynir hvert í sameiningu að leysa tuttugu dæmi. Til þess fá liðin fjóra og hálfan tíma á laugardagsmorgun, en keppnin fer fram frá klukkan 10.00 til 14.30 í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Þátttakendur í Eystrasaltskeppninni að þessu sinni eru tíu lið framhaldsskólanema sem hér segir: Frá Eystrasaltslöndunum þremur, Norðurlöndunum fimm, Póllandi og Norður-Þýskalandi. Fimm keppendur, flestir á aldrinum 16 til 19 ára, koma frá hverju landi, og auk þess fararstjóri og dómnefndarfulltrúi. Keppnin hér stendur dagana 4.-8. nóvember 1999. Liðunum til halds og trausts eru íslenskir leiðsögumenn en nokkrir nemendur á framhaldsskólastigi hafa tekið það hlutverk að sér.

Benedikt Jóhannesson, formaður Íslenska stærðfræðafélagsins, sagði að íslenska liðið væri býsna harðsnúið að þessu sinni en það skipa Andri H. Kristinsson, Bjarni Kristinn Torfason, Pawel Bartoszek, Snæbjörn Gunnsteinsson, Stefán Ingi Valdimarsson. Andri er úr MH en hinir úr MR. Liðið hefur undanfarnar vikur verið í þjálfun undir handleiðslu Áskels Harðarsonar, menntaskólakennara, en nemendur hans hafa náð mjög góðum árangri. Nú síðast náði Stefán fullu húsi stiga í undankeppni í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema, en það er í fyrsta sinn sem það gerist.