GESTIR í þjóðgarðinum Yosemite í Kaliforníu skipta hundruðum þúsunda á ári hverju. Föstudaginn 12. febrúar sl. komu þangað þær Carole Sund, 42 ára, dóttir hennar Juli, 15 ára, og Silvina Pelosso, 16 ára argentískur fjölskylduvinur.

GESTIR í þjóðgarðinum Yosemite í Kaliforníu skipta hundruðum þúsunda á ári hverju. Föstudaginn 12. febrúar sl. komu þangað þær Carole Sund, 42 ára, dóttir hennar Juli, 15 ára, og Silvina Pelosso, 16 ára argentískur fjölskylduvinur. Þær ætluðu að eyða nokkrum dögum í þjóðgarðinum og sáust síðast á veitingastað í El Postal, við vesturmörk þjóðgarðsins, að kvöldi mánudagsins 15. febrúar.

Næstu vikur var þeirra leitað hátt og lágt. Um 50 alríkislögreglumenn rannsökuðu málið, en þrátt fyrir mörg hundruð ábendingar frá fólki, sem taldi sig hafa séð mæðgurnar og vinkonu þeirra, varð þeim ekkert ágengt. Foreldrar og eiginmaður Carole Sund buðu 250 þúsund dala verðlaun (1.750 þús. kr.) hverjum þeim, sem gæti veitt upplýsingar er leiddu til þess að þær sneru aftur heim heilar á húfi. Í byrjun mars hét fjölskyldan að greiða 50 þúsund dali (um 350 þúsund kr.) fyrir upplýsingar um hvar bílaleigubíll þeirra væri niðurkominn. Allt kom fyrir ekki, hvorki fannst tangur né tetur af bílnum eða konunum, ef undan er skilið peningaveski Carole Sund, sem fannst á götuhorni í Modesto, borg í Kaliforníu alllangt frá þjóðgarðinum.

Lögreglan á villigötum

Það var ekki fyrr en í lok mars að brunnar leifar bílaleigubílsins fundust í skógarrjóðri við afskekktan vegarspotta skammt utan þjóðgarðsins. Í farangursgeymslu bílsins voru tvö lík, sem reyndust vera af Carole Sund og Silvinu Palesso. Nokkrum dögum síðar fannst lík Julie Sund í hlíð hátt í fimmtíu kílómetra frá bílnum, eftir að lögreglunni barst bréf með teiknuðu korti af svæðinu.

Rannsókninni var haldið áfram af fullum krafti. Um tíma var alríkislögreglan, FBI, sannfærð um að morðinginn væri fundinn. Það var fíkniefnaneytandi, sem hafði verið tekinn höndum 5. mars. Maðurinn hélt því fram að hann hefði átt hlut að morðunum og lögreglan grunaði hálfbróður hans og fleiri úr fámennri klíku fíkniefnaneytenda um að vera meðsekir. Lögreglan var undir miklum þrýstingi að leysa málið, sem hafði vakið athygli um öll Bandaríkin og þótt víðar væri leitað, en þarna var farið offari. Lögreglan tilkynnti síðar að litlar líkur væru á að fíkniefnaneytendurnir hefðu myrt mæðgurnar og vinkonu þeirra. Það er bæði gömul saga og ný að ýmsir eru tilbúnir að játa á sig hinn hræðilegasta verknað, þótt þeir hafi hvergi nærri komið.

En starfsmenn og gestir þjóðgarðsins voru einnig yfirheyrðir, þeirra á meðal Cary Stayner, sem sá um viðhald við gistiheimili á svæðinu af og til. Stayner, sem lögreglumenn yfirheyrðu tvisvar sinnum, kveikti engar sérstakar grunsemdir og málið virtist ekki ætla að leysast.

Morðinginn lætur aftur til skarar skríða

Rúmum fimm mánuðum eftir að Carole, Juli og Silvina sáust síðast á lífi fannst lík Joie Ruth Armstrong, 26 ára starfsmanns þjóðgarðsins. Joie bjó í starfsmannaíbúð örfáum kílómetrum frá gistiheimilinu þar sem konurnar þrjár höfðu búið.

Að þessu sinni gátu vitni borið að þau hefðu séð bíl Stayners nærri heimili fórnarlambsins daginn áður en líkið fannst. Stayner sjálfan var hvergi að finna, en lögreglan lýsti strax eftir honum og hann var handtekinn fjórum dögum síðar skammt frá Sacramento. Yfirheyrslur yfir honum voru vart hafnar þegar hann játaði á sig morðið á Joie Ruth, sem hann sagðist hafa rekist á að kvöldlagi og komist að því að hún væri ein. Hann kvaðst hafa ógnað henni með hníf og neytt hana til að setjast í farþegasæti pallbíls hans. Hún barðist hins vegar um á hæl og hnakka og tókst að kasta sér út um glugga á bílnum. Þá skar Stayner hana á háls, með slíku offorsi að hann afhöfðaði hana.

Stayner lét ekki þar við sitja í játningunum, heldur bætti við að hann hefði líka myrt Carole, Juli og Silvinu í febrúar. Hann sagðist hafa komist inn í íbúð þeirra undir því yfirskini að þurfa að lagfæra hreinlætistæki á baðherberginu, en síðan ógnað þeim með byssu, bundið þær, kyrkt Carole og Silvinu, en misþyrmt Juli kynferðislega. Lík Carole og Silvinu setti hann í skottið á bílaleigubíl þeirra, ók með Juli upp í fjöll, skar hana á háls og skildi hana eftir deyjandi. Þessu næst ók hann bílaleigubílnum drjúgan spöl, hellti eldsneyti yfir hann og kveikti í.

Bróðir í haldi níðings í sjö ár

Stayner-nafnið hefur áður komið við sögu glæpamála í Kaliforníu. Í desember árið 1972 var Steven, sjö ára bróður Carys Stayners, rænt á leið heim úr skólanum í heimabæ fjölskyldunnar, Merced, skammt frá mörkum Yosemite-þjóðgarðsins. Næstu sjö árin spurðist ekkert til hans, en í mars árið 1980 birtist hann á lögreglustöð, með fimm ára dreng sér við hönd. Ég veit að ég heiti Steven," sagði hann og sú setning var notuð sem heiti á sjónvarpsmynd um hörmungarnar sem hann hafði gengið í gegnum í sjö ár. Mannræninginn, Kenneth Parnell, hafði misnotað hann kynferðislega allan þennan tíma, en þegar Parnell rændi fimm ára dreng og ætlaði að endurtaka leikinn við hann ákvað Steven að forða barninu frá þeim örlögum.

Steven sneri aftur heim til fjölskyldunnar, en var skiljanlega illa haldinn eftir sjö ára martröð. Hann reyndi að lifa eðlilegu lífi, kvæntist árið 1985 og frægð hans var endurvakin árið 1989, þegar sjónvarpsmyndin var sýnd. Síðar sama ár lést hann í mótorhjólaslysi.

Stóri bróðir hans, Cary, kunni lítt að meta þá athygli sem Steven fékk. Það var ekki nóg með að skuggi Stevens hefði hangið yfir fjölskyldunni öll þessi ár, nú var honum fagnað sem hetju. Rithöfundurinn J.P. Miller, sem skrifaði handritið að sjónvarpsmyndinni um Steven, hefur birt útdrætti úr viðtölum, sem hann tók við Cary árið 1987, sjö árum eftir að litli bróðir kom heim. Cary, sem var 24 ára þegar viðtölin voru tekin, lýsti því yfir að hann hefði verið mjög ósáttur við að þurfa að deila svefnherbergi á ný með Steven, frægð litla bróður væri óverðskulduð, enda hefðu allir bjargað litla drengnum í sömu sporum og það hefði farið í taugarnar á sér að þurfa að horfa upp á Steven fá alla þessa athygli, gjafir og ný föt.

Cary Stayner hefur litlar skýringar gefið á morðunum í þjóðgarðinum. Í viðtölum hefur hann sagt að hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða alla ævi, svo búast má við að verjendur hans beiti þeirri vörn í réttarhöldunum sem hefjast í lok þessa árs, þar sem saksóknarar fara að líkindum fram á dauðarefsingu. Hann hefur hreykt sér af því að leiða lögregluna á villigötur, til dæmis með því að kasta peningaveski Carole Sund frá sér langt frá morðstaðnum. Hann taldi sig hafa fulla stjórn á aðstæðum og naut þess að senda lögreglunni bréfið með kortinu af staðnum þar sem lík Juli fannst.

Stayner hefur einnig lýst því yfir að hann hafi dreymt um að myrða konur frá því að hann var smádrengur. Lögreglan í Kaliforníu er nú að dusta rykið af mörgum óupplýstum morðmálum, t.d. morði árið 1994 þegar ung kona var afhöfðuð. Þá þykir líka ástæða til að skoða betur hvort föðurbróðir Stayners, sem lést af völdum skots úr eigin byssu árið 1990, lenti í raun í átökum við innbrotsþjóf á heimili sínu eða hvort ungur frændi hans, Cary Stayner, sem bjó hjá honum um þær mundir, kom þar við sögu.

Stayner hefur sagt að hann iðrist gjörða sinna og vilji gjarnan bæta fjölskyldum fórnarlambanna missinn með skaðabótum. Honum finnst augljóst hvaðan peningarnir til þess muni koma: Einhver hljóti að vilja kaupa sögu hans og búa til sjónvarpsmynd, eins og myndina um Steven litla bróður. Hingað til hefur enginn gefið sig fram.