REYKJAVÍK menningarborg Evrópu árið 2000 stendur í dag fyrir kynningarfundi á Höfn í Hornafirði þar sem undirritaðir verða samningar á milli Menningarborgarinnar og 28 sveitarfélaga og stofnana víðs vegar um land vegna 30 samtarfsverkefna á...

REYKJAVÍK menningarborg Evrópu árið 2000 stendur í dag fyrir kynningarfundi á Höfn í Hornafirði þar sem undirritaðir verða samningar á milli Menningarborgarinnar og 28 sveitarfélaga og stofnana víðs vegar um land vegna 30 samtarfsverkefna á menningarárinu. Verkefnin eru fjölbreytt eiga það sammerkt að vera skipulögð undir yfirskrift menningarársins, Menning og náttúra.

Um mitt síðasta ár skrifuðu forsvarsmenn Menningarborgarinnar til forráðamanna allra sveitarfélaga á landinu og óskuðu eftir hugmyndum að samstarfsverkefnum á menningarárinu. Viðbrögðin voru einstaklega góð. Sem dæmi um fjölbreytta flóru viðburða, sem kynntir verða í dag má nefna veglega jöklasýningu á Höfn, galdrasýningu á Ströndum, Varmárþing í Mosfellsbæ og dagskrá og sýningu helgaða landkönnuðinum Vilhjálmi Stefánssyni á Akureyri. Karlinn í tunglinu og börnin á jörðinni - er yfirskrift alþjóðlegs verkefnis frá Seyðisfirði, sem á að ná til barna um allan heim, og útfærslu á flestu sem viðkemur veiðum, sjávarútgerð og lífi við sjóinn er að finna í verkefnum Akraness, Reykjanesbæjar, Sandgerði og Grindavíkur. Meðal þess eru útilistaverk við hafið, lýsing Bergsins við Reykjanesbæ, dagskrá um sæ- og vatnaskrímsli og gjörningur fyrir togara, mótorbáta, þokulúðra, eimpípur, olíutunnur og slipphljóðfæri.

Í Vesturbyggð er verið að reisa listvinahús kennt við Jón úr Vör, íbúar í Árborg minnast Guðmundar Daníelssonar með ýmsum hætti og í Borgarfirði verður haldið mál- og tónþing um tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur og áhrif hennar á dægurtónlist samtímans. Á Austur-Héraði verður óperudagskráin Bjartar nætur og Eiríksstaðanefnd stendur fyrir hátíð Leifs Eiríkssonar og sýningu um Laxdælu og landafundi. Í Ölfusi verður haldin Þorláksvaka, uppihaldslítil söguveisla verður að Sögusetrinu á Hvolsvelli, á Ísafirði njóta bæjarbúar menningarveislu og á Húsavík minnast menn 50 ára afmælis bæjarins með fjölbreyttri dagskrá allt árið.