JÓHANNES Páll páfi sækir Indland heim á erfiðum tímum fyrir kristna menn í landinu. Áður en páfi lenti í höfuðborginni Nýju-Delhí í gær höfðu herskáir hindúar staðið fyrir mótmælum gegn komu hans víða um landið. Krefjast þeir þess að beðist verði afsökunar á framferði kaþólsku kirkjunnar fyrr á öldum. Þá hafa ofsóknir gegn kristnum mönnum á Indlandi færst í vöxt með ári hverju.

Fjögurra daga heimsókn páfa til Indlands er ætlað að styrkja trúboð kaþólsku kirkjunnar í Asíu við árþúsundamót. Herskáir hindúar á Indlandi hafa tekið það óstinnt upp, en þeir hafa ásakað kaþólsku kirkjuna um að neyða blásnauða hindúa til að snúast til kristni. Hefur sú krafa verið sett fram að páfinn biðjist formlega afsökunar á grimmdarverkum kaþólsku kirkjunnar gegn hindúum í Goa, sem var nýlenda Portúgala, fyrir nokkrum öldum.

Hreyfing heittrúaðra hindúa, Vishwa Hindu Parishad, hefur einnig hvatt páfa til að endurstaðfesta yfirlýsingu frá páfagarði varðandi lögmæti annarra guða, til að bæta samskiptin milli hindúa og kaþólskra. Á miðvikudag var birt kveðja Páfagarðs til hindúa, þar sem hvatt er til frekari samvinnu milli trúarbragðanna tvennra, þrátt fyrir að þau væru afar ólík.

Aðeins 2,5% af 960 milljónum íbúa Indlands játa kristna trú, og hafa ofsóknir gegn þeim aukist á undanförnum árum, samfara uppgangi herskárra hindúa í stjórnmálum landsins. Um 24 milljónir manna tilheyra kristnum samfélögum á Indlandi, og þar af eru 16 milljónir kaþólskar.

Kristilegu mannréttindasamtökin United Christian Forum for Human Rights segjast hafa vitneskju um 150 ofbeldisverk sem framin hafi verið gegn kristnum mönnum vegna trúar þeirra á Indlandi á síðustu tveimur árum, samanborið við 38 árásir sem tilkynnt var um á árabilinu 1964 til 1996. Ráðist hefur verið á presta, nunnum nauðgað og eldur lagður að kirkjum og kapellum.