SHIMON Peres, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, hvatti í gær yfirvöld í Ísrael til að taka að nýju upp rannsóknina á morði Yitzhaks Rabins.

SHIMON Peres, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, hvatti í gær yfirvöld í Ísrael til að taka að nýju upp rannsóknina á morði Yitzhaks Rabins. Ástæðan er sú að fjölskylda Rabins hefur að undanförnu gefið í skyn að öryggisverðir forsætisráðherrans kunni að hafa átt aðild að morðinu. Rabin var myrtur árið 1995 af andstæðingum friðarsamninga Ísraela og Palestínumanna.

Nýverið sagði dóttir Rabins, Dalia Rabin-Pelosoff, í viðtali við tímarit í Ísrael að mörgum spurningum væri enn ósvarað varðandi hegðun öryggisvarða skömmu áður og skömmu eftir að morðið var framið.

Huldumaður hrópaði "púðurskot, púðurskot"

Í fyrsta lagi sé eftir að skýra hver það var sem hrópaði "púðurskot, púðurskot" á morðstaðnum eftir að morðinginn hafði hleypt af. Dalia segir að öryggisverðir hafi sagt móður hennar, á sjúkrahúsinu þangað sem farið var með Rabin, að um æfingu hefði verið að ræða. Ekki hafa fengist skýringar á framferði þeirra.

Einnig hefur verið bent á að enn hafi ekki fengist skýring á því hvers vegna öryggissveitirnar, sem kallast Shin Bet, gátu ekki komið í veg fyrir morðið. Upplýst hefur verið að einum meðlimi þeirra hafi undir fölsku yfirskyni tekist að komast inn fyrir raðir öfgahópsins sem stóð að morðinu á Rabin. Maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir að hafa ekki hindrað morðið á forsætisráðherranum.