ÞAÐ vakti athygli margra að Alfreð Gíslasson, þjálfari Magdeburg, valdi ekki einn þekktasta landsliðsmann Þjóðverja, Stefan Kretzschmar, í lið sitt fyrir deildarleikinn gegn Gummersbach sl. þriðjudagskvöld.

ÞAÐ vakti athygli margra að Alfreð Gíslasson, þjálfari Magdeburg, valdi ekki einn þekktasta landsliðsmann Þjóðverja, Stefan Kretzschmar, í lið sitt fyrir deildarleikinn gegn Gummersbach sl. þriðjudagskvöld.

"Ég setti hann út úr liðinu til að koma honum í skilning um að hann þyrfti að æfa eins og hinir í liðinu. Hann var búinn að æfa ágætlega þar til fyrir tveimur vikum að hann fór að slaka á og reyna að öðlast gamla frelsið sem hann hafði í fyrra vetur. Ég setti hann því út og lét ungan strák spreyta sig í horninu í staðinn og hann stóð sig vel. Tilgangurinn var að sýna Kretzschmar að það kemur maður í manns stað. Kretzschmar er mjög þekktur og er því töluvert í sviðsljósinu, en það eina sem ég ætlast til af honum er að hann æfi eins og hinir."

Eru Þjóðverjarnir latari að æfa en útlendingarnir í liðinu hjá þér?

"Nei, alls ekki. Þýsku strákarnir eru mjög öflugir og hafa tekið þessu æfingaálagi mjög vel. Margir af þessum strákum hafa átt í smá meiðslum undanfarin ár og tel ég að þau stafi af því að þeir hafa ekki æft nægilega mikið."