ALFREÐ Gíslason, þjálfari Magdeburg, segir í viðtali við Morgunblaðið að íslenski landsliðsmaðurinn Ólafur Stefánsson sé einn af þremur bestu vinstrihandarskyttunum í heiminum.

ALFREÐ Gíslason, þjálfari Magdeburg, segir í viðtali við Morgunblaðið að íslenski landsliðsmaðurinn Ólafur Stefánsson sé einn af þremur bestu vinstrihandarskyttunum í heiminum. "Við vorum að framlengja samninginn við hann vegna þess að hann er liðinu mjög mikilvægur. Ég er sannfærður um að hann er það og kemur til með að vera einn af þremur bestu vinstrihandarskyttunum í heiminum næstu átta til tíu árin. Þess vegna vildum við ganga frá því sem fyrst að tryggja að hann yrði áfram hjá félaginu næstu árin," sagði Alfreð.

Hann segir að Ólafur hafi staðið sig mjög vel. "Hann er lykilmaður í sókninni hjá okkur og í vörninni reyndar líka þótt hann sé á þeim aldri að geta bætt sig að öllu leyti enn. Hann var skorinn upp í sumar og náði sér mjög fljótlega á strik eftir uppskurðinn. Hann er harður af sér, æfir vel og nær árangri."

Ólafur var besti leikmaður liðsins þegar Magdeburg vann Gummersbach, 23:20, sl. þriðjudag og skoraði þá sex mörk.

Viðtal við Alfreð/B4