TEITUR Þórðarson, knattspyrnuþjálfarinn sem hefur verið við stjórnvölinn hjá landsliði og félagsliði í Eistlandi undanfarin ár, gerði þriggja ára samning við norska liðið Brann frá Bergen í gær, liðinu sem hann stýrði fyrir heilum áratug. Forráðamenn þess sögðu í gær að Teitur myndi taka við starfinu í janúar á næsta ári og að árslaun hans yrðu rúm ein milljón norskra króna, eða tæpar tíu milljónir íslenskra króna. Auk þess fær Teitur kauprétt í hlutafé félagsins.

Teitur hafði átt í viðræðum við Brann um nokkurt skeið og á dögunum sagði hann m.a. í samtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2 að hann væri spenntur fyrir því að snúa aftur til Bergen. Teitur tók við þjálfun eistneska landsliðsins og Flora frá Tallinn árið 1995.

Teitur tók ákvörðunina í gærmorgun eftir að hafa íhugað lengi hvort hann léti slag standa eða héldi áfram starfi sínu hjá eistneska landsliðinu og Flora frá Tallinn. Teitur hefur áður verið við stjórnvölinn hjá Brann, þjálfaði liðið árin 1988 og 1989. "Þetta er mjög spennandi starf," sagði Teitur í samtali við Morgunblaðið í gær er hann var nýlentur í Tallinn eftir ferð eisneska landsliðsins til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. "Brann er tvímælalaust eitt allra áhugaverðasta félagsliðið á Norðurlöndum ásamt Rosenborg, Gautaborg, Bröndby og AIK frá Stokkhólmi. Þetta eru lið með gífurlegan áhangendaskara og hjá þeim starfar fjöldi fólk. Þar ríkir mikill áhugi," sagði þjálfarinn. Teitur sagði starf þjálfara hjá Brann sérstaklega áhugavert nú, þar sem breytingar væru fyrirhugaðar á rekstri félagsins. "Hjá félaginu ríkir endurskipulagning og ætlunin er að einfalda alla starfsemi þess. Hún hefur verið þung í vöfum vegna of margra stjórna og nefnda," sagði Teitur. Hann sagði ákvörðunina hafa verið nokkuð erfiða. "Hún var það að því leyti að mér var mögulegt að halda áfram í Eistlandi. Þess vegna tók ég mér góðan tíma til að íhuga málið," sagði hann, en auk áhuga Eistlendinga og Norðmanna á kröftum þjálfarans hafði grískt félagslið sett sig í samband við hann.

Uppbygging unglingastarfs og breytingar á leikaðferð

Teitur segir að starf þjálfara hjá Brann sé frábrugðið skyldum hans í Eistlandi. "Hérna hafði ég yfirumsjón með uppbyggingu allra landsliða og Flora, auk þess sem það hafði tuttugu og fimm dótturfélög sem æfðu reglulega með okkur. Hjá Brann get ég einbeitt mér að A-liðinu, en þó er mikill áhugi fyrir því að byggja upp unglingalið. Við byrjuðum einmitt á því þegar ég var síðast hjá Brann, og gekk vel, en síðar var því hætt," sagði Teitur.

Fyrr á árinu sættust leikmenn Brann á launalækkun um tíu prósent svo félagið gæti losað sig úr fjárkröggum. Brann komst í úrslit norsku bikarkeppninnar í síðasta mánuði, tapaði fyrir meisturum Rosenborg í úrslitaleik, 2:0. Liðið hafnaði í þriðja sæti í úrvalsdeildinni, sjö stigum á eftir Rosenborg og einu á eftir Molde. Því var stjórnað af Harald Aabrekk, en samningur hans rennur út um áramótin. Hann hyggst snúa sér að því að aðstoða Nils Johan Semb við þjálfun norska landsliðsins, að sögn Teits.

"Liðið stóð sig mjög vel á keppnistímabilinu og það verður ekki hlaupið að því að bæta þann árangur. En ein af ástæðum þess að haft var samband við mig var sú að félagið hefur óskað eftir því að skipta um leikaðferð. Það hefur beitt þessum löngu sendingum, sem einkennt hafa norska landsliðið. Ég lagði meiri áherslu á samleik þegar ég var þarna síðast og ég veit að fólki líkaði það vel. En það verður erfitt að bæta fyrri árangur liðsins á einu ári."

Samkvæmt norska dagblaðinu Bergens tidende hefur framkvæmdastjóri Flora Tallinn, Aivar Pohlak, brugðist illa við ákvörðun Teits og sagt hana á skjön við samkomulag þjálfarans við félagið, en það vildi halda honum og bauð honum nýjan samning. "Pohlak vildi ekki bíða lengi eftir svari mínu og var orðinn óþolinmóður. Í [fyrradag] sagðist hann ætla að draga tilboðið til baka og ég sagði honum að gæti þá allt eins gert það. Ég hafði hvort eð er tekið ákvörðun," sagði Teitur Þórðarson.