Harðar deilur eiga sér nú stað í Noregi um eignarhald á fjármálafyrirtækjum og þá ekki síst kaup erlendra fyrirtækja á norskum peningastofnunum.

Í Noregi er nú deilt um eignarhald á fjármálafyrirtækjum í tilefni af því að sænskir bankar hafa sýnt áhuga á að kaupa í norska Kreditkassen. Skiptar skoðanir eru um hvort norska ríkið eigi áfram að reka viðskiptabanka eða hvort slík tilhögun sé tímaskekkja.

Fyrir viku lagði fjármálaráðherra Noregs, Gudmund Restad, fram frumvarp sem hafa mun mikil áhrif á framtíð norsks fjármálamarkaðar, verði það að lögum. Samkvæmt frumvarpinu mun norska ríkið halda áfram að eiga þriðjungshluta í Kreditkassen og Den norske Bank, sem eru tveir stærstu viðskiptabankarnir í Noregi.

Nái frumvarpið fram að ganga þýðir það að tilboði finnsk-sænsku bankasamstæðunnar MeritaNordbanken í Kreditkassen verður hafnað. MeritaNordbanken, sem er annar stærsti banki á Norðurlöndum, gerði hluthöfum í Kreditkassen tilboð í ágúst síðastliðnum og hafa miklar deilur staðið um hvort ríkið ætti að ganga að tilboðinu eða ekki. Það hefur enn aukið á vanda ríkisstjórnarinnar að í byrjun síðasta mánaðar bauð sænski Handelsbanken einnig í Kreditkassen og var það tilboð nokkru hærra en tilboð MeritaNordbanken.

Veltur á afstöðu Verkamannaflokksins

Í Noregi eru í gildi reglur sem banna einstökum aðilum, þ.e. fyrir utan ríkið, að eiga meira en 10% í fjármálafyrirtækjum. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er haldið fast við þessa meginreglu en ein undantekning heimiluð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki megi eiga allt að 25% hlut í öðru fjármálafyrirtæki ef um skipulegt samstarf fyrirtækjanna er að ræða.

Óvissa ríkir um hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga á Stórþinginu eða ekki. Málið er jafnvel talið geta leitt til þess að minnihlutastjórn Kjell Magne Bondevik neyðist til að fara frá. Niðurstaðan mun að öllum líkindum ráðast af því hvernig þingmenn Verkamannaflokksins, stærsta flokksins á þingi, munu greiða atkvæði en það er ekki ljóst enn sem komið er. Formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, Thorbjørn Jagland, hefur gefið í skyn að flokkurinn geti hugsað sér að selja hlut ríkisins í öðrum af bönkunum þar sem ríkið er í ráðandi stöðu. Örlög frumvarpsins og ríkisstjórnarinnar munu hugsanlega ráðast fyrir lok næstu viku þegar tilboð MeritaNordbanken rennur út.

Nauðsynlegt að Norðmenn eigi viðskiptabanka

Kauptilboð sænsku bankanna hafa orðið tilefni mikilla umræðna í norskum fjölmiðlum um eignarhald á fjármálafyrirtækjum og skipulag á norskum fjármálamarkaði. Andstæðingar þess að ríkið selji hlut sinn í bönkunum halda því fram að nauðsynlegt sé að Norðmenn eigi sjálfir viðskiptabanka til að tryggja hagsmuni sína. Þeir halda því einnig fram að einungis með því að ríkið haldi ráðandi hlut sínum sé hægt að koma í veg fyrir að bankarnir lendi í eigu útlendinga.

Margir frammámenn í norsku atvinnu- og viðskiptalífi hafa tekið undir þessi sjónarmið. Í fyrsta lagi er því haldið fram að norskur banki muni taka betra tillit til norsks atvinnulífs en banki í erlendri eigu sem einungis starfaði í samræmi við arðsemisjónarmið. Það sé betra að vera einn af stærstu viðskiptavinum norsks banka en viðskiptavinur númer 50 í norrænum banka sem er með höfuðstöðvar í Stokkhólmi.

Í öðru lagi er á það bent að með því að höfuðstöðvar banka flytjist úr landi tapist mikilvæg þekking og hæfir starfsmenn. Þannig minnki samkeppnishæfni norsks fjármálamarkaðar við að bankarnir lendi í höndum útlendinga.

Ríkisstjórnin föst í fortíðinni

Þeir sem eru fylgjandi sölu ríkisbankanna hafa undrast rök af þessu tagi og hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að vera fasta í fortíðinni og vilja ekki horfast í augu við breyttar aðstæður. Raunar hefur svipuð gagnrýni heyrst um afstöðu stjórnarinnar til sölu ríkisfyrirtækja almennt - henni er borið á brýn að hún láti þjóðernishyggju ráða ferðinni. Erlend stórfyrirtæki sem hafa sýnt vilja til þess að sameinast norskum fyrirtækjum hafa orðið frá að hverfa vegna afstöðu stjórnvalda. Skemmst er að minnast þess er sænski atvinnumálaráðherrann, Björn Rosengren, kallaði Noreg "síðasta ráðstjórnarríkið" vegna erfiðleikanna í tengslum við samruna Telia og Telenor.

Fylgjendur sölunnar benda á þá staðreynd að fyrirtæki á fjármálamörkuðum heimsins hafa verið að stækka mikið að undanförnu með samruna og yfirtöku. Í Evrópu hafi þessi þróun nýlega fengið byr undir báða vængi með tilkomu evrunnar. Þeir halda því fram að ríkisstjórnin sé að reyna að stöðva þróun sem á undanförnum árum hefur leitt til fjölda samruna banka á Norðurlöndum.

Á síðustu árum hafa bankar og fjármálastofnanir á Norðurlöndum verið í óða önn að sameinast og hafa sumir líkt ástandinu við kapphlaup. Því hefur verið haldið fram að innan fárra ára verði aðeins eftir þrír til fjórir bankar á Norðurlöndum. Þeir sem eru fylgjandi því að norska ríkið selji hlut sinn í bönkunum benda á að hnattvæðing efnahagslífsins neyði fjármálafyrirtæki til að hagræða og stækka svo þau verði betur í stakk búin að mæta samkeppni erlendis frá.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar í þessu máli halda því einnig fram að norskir viðskiptavinir fái síður en svo lakari þjónustu þótt eignarhald á norskum bönkum færist að hluta til úr landi. Samkeppnin valdi því að enginn banki geti lifað af nema bjóða viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu. Ennfremur sé rangt að halda því fram að unnt sé að halda í mikilvæga þekkingu og mannauð með því einu að ríkið selji ekki hlut sinn. Eftir að frjáls för fjármagns og vinnuafls kom til í Evrópu þurfi annars konar ráðstafanir af hendi stjórnvalda til að tryggja að fjármálastofnanir vilji halda úti starfsemi í Noregi.