HÖFÐASKÓLI á Skagaströnd á 60 ára afmæli um þessar mundir. Það var árið 1939 sem fastaskóla var komið á í Höfðahreppi, en áður hafði börnum verið kennt í nokkra áratugi með farskólasniði. Kennsla fór í fyrstu fram í gömlu steinhúsi sem upphaflega var verslunarhús. Nýtt skólahús var tekið í notkun 1958 og viðbygging við það árið 1982. Á sl. ári var svo fyrsta sérbyggða íþróttahúsið á Skagaströnd tekið í gagnið.

Höfðaskóli er nú einsetinn skóli með 115 nemendum. Allur aðbúnaður nemenda og kennara er mjög góður og skólinn ágætlega búinn kennslugögnum og er m.a. að finna hið ágætasta tölvuver ásamt fjarfunda- og fjarkennslubúnaði.

Haldið verður upp á 60 ára afmæli skólans á morgun, sunnudaginn 7. nóvember, með fjölbreyttri dagskrá sem hefst kl. 14 með skrúðgöngu frá gamla skólanum að núverandi skóla. Komið hefur verið upp gamalli skólastöfu í skólanum með gömlum borðum og stólum ásamt bókum, tækjum, myndum og munum frá liðinni tíð og verður stofan opin á meðan á dagskrá stendur, frá kl. 14 til 17.

Í þessari viku sem kölluð er þemavika hafa nemendur unnið að undirbúningi afmælisins með margvíslegu móti. Nemendur hafa æft söng og dans sem spannar langt tímabil til baka. Þeir hafa æft upp tískusýningu með skólafatnaði frá liðnum áratugum, tekið viðtöl við gamla nemendur og kennara og safnað saman ýmsum minningarbrotum úr sögu skólans sem þeir lesa upp og kynna á afmælishátíðinni. Þá hafa nemendur unnið að veglegu skólablaði þar sem margvíslegan fróðleik er að finna og einnig hafa þeir samið leikrit sem sýnir alvöru og kímni nemenda og kennara skólans á liðnum áratugum.