STJÓRN Vímulausrar æsku og Foreldrahópurinn hafa sent frá sér eftirfarandi: "Stjórn Vímulausrar æsku og Foreldrahópurinn lýsir áhyggjum sínum vegna áróðursherferðar sem nú er hafin fyrir sölu léttvíns og bjórs í stórmörkuðum.

STJÓRN Vímulausrar æsku og Foreldrahópurinn hafa sent frá sér eftirfarandi:

"Stjórn Vímulausrar æsku og Foreldrahópurinn lýsir áhyggjum sínum vegna áróðursherferðar sem nú er hafin fyrir sölu léttvíns og bjórs í stórmörkuðum. Áfengisneysla á íbúa er mun meiri í þeim löndum sem heimila sölu áfengis í mörkuðum og kjörbúðum en hér á landi. Íslendingar glíma nú þegar við ærinn áfengisvanda og óverjandi er að gera nokkuð það er gæti orðið til að auka á hann.

Vímulaus æska og foreldrahópurinn skora því á almenning og stjórnvöld að standa þétt saman gegn öllum þrýstingi sem beinist að því að gera áfengi aðgengilegt í almennum verslunum. Foreldrar vilja ekki að börn og unglingar læri að líta á sölu áfengis og neyslu áfengis sem jafn sjálfsagðan hlut og neyslu matar og drykkjar. Það er undarlegur tvískinnungur að á sama tíma og allir virðast sammála um að rétt hafi verið að fjarlægja tóbak úr hillum verslana skuli nokkur maður láta sér detta í hug að setja áfengi í tómu hillurnar."