KRISTJÁN Ragnarsson, formaður LÍÚ, telur nauðsynlegt að Íslendingar taki stjórn veiða á djúpkarfa á lögsögumörkum okkar í eigin hendur. Hann segir að ekki sé allt með felldu í svonefndum úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg.

KRISTJÁN Ragnarsson, formaður LÍÚ, telur nauðsynlegt að Íslendingar taki stjórn veiða á djúpkarfa á lögsögumörkum okkar í eigin hendur. Hann segir að ekki sé allt með felldu í svonefndum úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg. "Við höfum lengi gagnrýnt það að veiðum okkar á djúpkarfa neðan 500 metra dýpis út við mörk íslenskrar lögsögu, skuli stjórnað á grundvelli bergmálsmælinga á úthafskarfa ofan 500 metra dýpis og suður um allan sjó. Slíkt fyrirkomulag nær auðvitað ekki nokkurri átt! Og nú hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið lagt til, ekki síst á grundvelli þessara bergmálsmælinga, að heildarafli allra þjóða verði skorinn niður úr 153 þúsund lestum í 85 þúsund lestir," sagði Kristján Ragnarsson í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ í gær. Fiskveiðinefnd Norðaustur-Atlantshafsins tekur ákvörðun um heildarafla síðar í þessum mánuði.

"Full ástæða er til að sýna fyllstu aðgát við djúpkarfaveiðarnar. Flest bendir til þess að um einn og sama djúpkarfastofn sé að ræða allt frá landgrunnsbrúninni í Skerjadjúpi og suður um lögsöguna og út í úthafið. Við Íslendingar getum ekki endalaust sýnt þolinmæði meðan aðrar þjóðir þrjóskast við að viðurkenna skýrar niðurstöður erfðarannsókna, sem sýna að um aðskilda stofna djúpkarfa og úthafskarfa er að ræða. Við ættum því að taka stjórn djúpkarfaveiðanna á lögsögumörkunum í okkar hendur," sagði Kristján.

Endurskoðun fiskveiðistjórnunar

Kristján ræddi meðal annars um stöðugleika í efnahagsmálum og kjarasamninga við sjómenn, en vék svo máli sínu að stjórnun fiskveiða: "Enn eina ferðina hafa verið skipaðar nefndir til þess að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Sitja nú að störfum tvær nefndir um þetta mál. Önnur ræðir hvort leggja beri auðlindaskatt á sjávarútveginn og hinni er ætlað að finna sátt um stjórnun fiskveiða.

Það er næsta kyndugt að umræða geti snúist um sérstaka skattlagningu á sjávarútveginn. Almenningur hefur notið þess ríkulega að sjávarútveginum hefur vegnað betur eftir að núverandi fyrirkomulagi var komið á við stjórn fiskveiðanna. Af margvíslegum ástæðum er afkoma einstakra fyrirtækja þó æði misjöfn, sem kemur m.a. fram í því að fyrirtæki sem skipta megin máli í atvinnulífi margra byggðarlaga eru rekin með verulegu tapi ár eftir ár og eru komin að fótum fram. Viðbótar skattlagning myndi valda gjaldþroti margra þeirra. Sérstakur skattur á sjávarútveg er skattur á landsbyggðina og myndi enn auka á erfiðleika hennar. Mörg fyrirtæki í sjávarútvegi greiða nú í vaxandi mæli tekjuskatt eftir að afkoma þeirra batnaði. Það hefur þó tekið nokkur ár að vinna upp tap fyrri ára.

Það kemur á óvart hve lítið er rætt um þá miklu mismunun sem felst í því að fyrirtækjum sem nýta auðlindir jarðar til raforkuframleiðslu eða hitaveitu skuli ekki gert skylt að greiða tekjuskatt eins og öðrum fyrirtækjum. Sýnist eðlilegt að jafna þennan mun milli þeirra sem auðlindir nýta áður en rætt er um nýjan skatt á þá sem nýta auðlindir sjávar.

Enn ein nefndin

Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar á liðnum árum til þess að ná meiri sátt um stjórnkerfi fiskveiða. Hefur nú enn ein nefndin verið skipuð af sjávarútvegsráðherra í þessu skyni á grundvelli stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna. Telja verður nokkuð sérstakt að atvinnugreinin sem á allt undir því hvernig til tekst um stjórn veiðanna skuli ekki eiga aðild að slíkri endurskoðun. Ég hef sagt það áður og segi það enn að ábyrgðarlitlir stjórnmálamenn munu ávallt búa til ágreining um jafn mikilvægt mál eins og veiðistjórnun er og freista þess að fiska í gruggugu vatni. Að vænta annars er óskhyggja. Við megum ekki gleyma því að fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á liðnum árum allar í því skyni að ná meiri sátt. Ég minni á aukna veiðiskyldu, takmörkun á framsali, takmörkun á eignarhaldi, bann við að afskrifa keyptar veiðiheimildir, sérstaka skattalega meðferð á seldar veiðiheimildir, sífellt aukinn rétt smábáta á kostnað annarra báta, byggðakvóta, kvótaþing og Verðlagsstofu skiptaverðs svo einhver dæmi séu nefnd. Allar áttu þessar breytingar að skapa sátt, en allar hafa þær gengið út á það að skaða fiskveiðistjórnunina og gera hana ómarkvissari og færa atvinnugreinina frá þeirri markaðsvæðingu sem kvótakerfið leiddi til. Ekki orkar tvímælis að fiskveiðistjórnunin hefur orðið atvinnugreininni og þjóðinni til heilla með vernd fiskistofna og bættu efnahagslegu umhverfi.

Ennþá finnast stjórnmálamenn sem linnulaust tala um að fiskveiðistjórnunin hafi valdið þeim byggðarvanda sem við er að glíma. Fjöldi fræðimanna hefur fengið það hlutverk að kanna þetta mál og allir hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og bent á aðra samverkandi þætti í þessu sambandi. Í frétt um flutning veiðiheimilda er einungis rætt um þann stað sem flutt er frá í það og það skiptið en ekki þann stað sem flutt er til. Ekki hafa veiðiheimildir aukist á SV-horni landsins, heldur hið gagnstæða.

Slæm reynsla af úthlutun byggðakvóta

Hugmyndir um að binda veiðiheimildir í tiltekinni byggð myndu raska og eyðileggja núverandi fiskveiðikerfi. Þá myndi hinn markaðslegi hvati með öllu hverfa og ekki yrðu gerðar kröfur til nýtingar þeirra verðmæta sem um væri að ræða ef viðkomandi væri þess fullviss að hann hefði heimildirnar á hverju sem gengi í rekstri hans. Það er næsta furðulegt að einn málsvari þessara hugmynda skuli koma úr stjórnmálaflokki sem kennir sig við frjálsa samkeppni og markaðsbúskap. Sú slæma reynsla sem fengist hefur af úthlutun byggðakvóta, með þeirri úlfúð og illindum sem henni hafa fylgt, ætti að vera mönnum víti til varnaðar. Umræða um, að hér verði innan fárra ára 3-5 fyrirtæki er hafi umráð yfir 70% veiðiheimilda og ýmsir okkar félaga hafa tekið þátt í, er sjávarútveginum neikvæð. Hún stríðir gegn gildandi lögum um takmarkaðan umráðarétt veiðiheimilda, sem samtök útvegsmanna hafa lýst sig samþykk, og er ekki heppileg frá landfræðilegu sjónarmiði. Hún hefur einnig kallað fram neikvæð viðbrögð. Stór og öflug fyrirtæki á verðbréfamarkaði og í fjöldaeign eru sjávarútveginum gagnleg. Dæmin sýna hinsvegar að það er ekki stærðin ein sem afkomunni ræður; ekki síður rekstrarleg hæfni stjórnenda og jákvæð ytri skilyrði. Það hefur löngum einkennt sjávarútveginn, hve rekstrareiningar hafa verið fjölbreytilegar. Þar hafa einyrkjar og millistór fyrirtæki ávallt skipað veglegan sess og vondandi mun svo verða áfram," sagði Kristján Ragnarsson.