ÚTGEFENDUR kvikmynda í stafrænu formi hafa miklar áhyggjur af öryggi myndanna, enda gefur augaleið að auðvelt er að fjölfalda stafræn gögn, hvort sem um er að ræða tónlist eða kvikmyndir.

ÚTGEFENDUR kvikmynda í stafrænu formi hafa miklar áhyggjur af öryggi myndanna, enda gefur augaleið að auðvelt er að fjölfalda stafræn gögn, hvort sem um er að ræða tónlist eða kvikmyndir. Því var stuðst við traustan öryggisstaðal við mótun DVD-staðalsins, eða það héldu menn í það minnsta. Á fimmtudag spurðist út að búið væri að brjóta upp dulritunina sem átti að gera afritun ókleifa.

DVD-myndum er læst með svonefndri CSS-tækni, þ.e. myndin er dulrituð á disknum og þarf lykil og CSS-hugbúnað til að ljúka henni upp svo hægt sé að spila myndina. Mörg ár tók að berja saman CSS-staðalinn og til að tryggja að menn geti ekki afritað myndir, til að mynda á harða diskinn hjá sér, er CSS-lykillinn sem fylgir afspilunarhugbúnaðinum dulritaður.

Útbreiðsla DVD-drifa hófst í tölvum þó heimilisdrifum hafi sífellt fjölgað. Snemma varð og fáanlegur hugbúnaður til að spila slíka diska í tölvum, þ.e. þeim tölvum sem nota MacOS- eða Windows-stýrikerfin. Engum framleiðanda fannst taka því að setja á markað slíkan hugbúnað fyrir Linux og því tóku nokkrir norskir Linux-áhugamenn sig til og hófu smíði þannig hugbúnaðar. Til að átta sig á hvað ætti að gera tóku þeir í sundur DVD-hugbúnað fyrir Windows en rákust hvarvetna á dulritaðan CSS-lykilinn sem þeir komust ekki framhjá. Eftir að hafa skoðað nokkra hugbúnaðarpakka til DVD-afspilunar rákust þeir á einn þar sem gleymst hafði að dulrita lykilinn, forrit frá Xing-fyrirtækinu, sem er í eigu RealNetworks.

Forritið umrædda heitir XingDVD og svo virðist sem höfundum þess hafi einfaldlega láðst að búa um hnútana eins og fyrir þá var lagt. Fyrir vikið var mun auðveldara fyrir Norðmennina að búa til DVD- afspilunarlykil, en þegar óprúttnir fréttu af þessu voru þeir ekki seinir á sér að brjóta upp XingDVD-forrit og nýta upplýsingarnar sem þeir fundu þar til að semja forrit sem brotið getur upp læsingu á öllum DVD-diskum.

Forritið, sem heitir DeCSS og er víða að finna á Netinu, gerir kleift að afrita DVD-myndir að vild, til að mynda á harðan disk viðkomandi, sem er vitanlega brot á höfundarréttarlögum. Getur nærri að þetta hefur valdið írafári í Hollywood. Þar hafa menn þó huggað sig við að enn eigi tæknin nokkuð í land með að hægt sé að afrita heila mynd í einu, því DVD-mynd er frá tæpum fimm gígabætum í um níu, en ekki er hægt að brenna nema hálft þriðja gígabæti í heimabrennara.

Framleiðendur DVD-mynda hafa áður lent í hremmingum vegna slaks öryggisþáttar þeirra og nefna má að fyrir löngu var búið að brjóta upp svonefnda svæðislása myndanna, sem átti að koma í veg fyrir að notendur á einu markaðssvæði gætu spilað myndir sem gefnar eru út fyrir annað svæði.