GJALDEYRISFORÐI Seðlabanka Íslands dróst saman um 0,6 milljarða króna í október og nam í lok mánaðarins 34,1 milljarði króna, sem er jafnvirði 479 milljóna bandaríkjadala. Frá ársbyrjun hafði forðinn styrkst um 4,4 milljarða króna. Í september sl.

GJALDEYRISFORÐI Seðlabanka Íslands dróst saman um 0,6 milljarða króna í október og nam í lok mánaðarins 34,1 milljarði króna, sem er jafnvirði 479 milljóna bandaríkjadala. Frá ársbyrjun hafði forðinn styrkst um 4,4 milljarða króna. Í september sl. styrktist gjaldeyrisforðinn vegna tímabundinna erlendra lánahreyfinga ríkissjóðs og gætti áhrifa þess í stöðu forðans í lok mánaðarins. Svipaðra áhrifa gætti í lok október. Þetta kemur m.a. fram í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Seðlabankinn hafi engin viðskipti átt á innlendum millibankamarkaði með gjaldeyri í október, og gengi íslensku krónunnar, mælt með vísitölu gengisskráningar, hafi hækkað um 1,6% í mánuðinum. Erlend skammtímalán hækkuðu um 1,1 milljarð króna í október en lækkuðu um 2,7 milljarða frá áramótum til loka október. Erlend langtímalán bankans námu 1,1 milljarði króna í lok október og höfðu lækkað um 4 milljarða króna frá áramótum.

Heildareign Seðlabankans í markaðsskráðum verðbréfum nam 8,3 milljörðum króna í októberlok m.v. markaðsverð og lækkaði um 500 milljónir, og ríkisvíxlaeign nam 1,9 milljörðum króna. Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir námu 18,1 milljarði króna í lok mánaðarins og höfðu aukist um 2,2 milljarða, og kröfur á aðrar fjármálastofnanir voru 5,7 milljarðar og höfðu lækkað um 2,8 milljarða. Grunnfé bankans dróst saman um 0,2 milljarða króna í mánuðinum og nam 23,1 milljarði króna í lok hans.