TRIO Parlando heldur tónleika í Tíbrá þriðjudagskvöldið 9. nóvember. Tónleikarnir verða í Salnum í Kópavogi og hefjast kl. 20:30.

TRIO Parlando heldur tónleika í Tíbrá þriðjudagskvöldið 9. nóvember. Tónleikarnir verða í Salnum í Kópavogi og hefjast kl. 20:30.

Trio Parlando var stofnað af þremur ungum tónlistarmönnum, sem kynntust við nám í Sweelinck-tónlistarháskólanum í Amsterdam fyrir tæpum tveimur árum. Tríóið skipa þau Rúnar Óskarsson klarínettuleikari, Hélene Navasse flautuleikari og Sandra de Bruin píanóleikari. Hafa þau hlotið alþjóðlega viðurkenningu vegna óvenjulegs samspils flautu, bassklarinettu og píanós.

Á efnisskránni eru verkin Ringing the Changes eftir Andrew Ford, frumflutningur á verkinu Bergmál eftir Oliver Kentish, Rún eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, La Muerte del Angel eftir Astor Piazzolla, Sporðdrekadans eftir Kjartan Ólafsson, Sónata fyrir flautu og píanó op. 14 eftir Robert Muczynski og Il volto della notte eftir Paolo Perezzani.

"Efnisskráin fyrir þessa tónleika okkar í Salnum er valin með einungis eitt takmark að leiðarljósi, fjölbreytni, þ.e. fjölbreytni innan ákveðins ramma. Trio Parlando gefur sig út fyrir að spila nútímatónlist en þrátt fyrir þá yfirlýsingu má heyra ýmislegt á tónleikunum á þriðjudaginn kemur - sumt er nútímalegt, annað þykjumst við kannast við," segir Rúnar Óskarsson.