Í NÓVEMBER og desember verðar sýnd 17 valin verk Karls Einarssonar Dunganons, hertoga af Sankti Kildu, í Kaffistofu Listasafns Íslands. Dunganon ánafnaði íslenska ríkinu öllu safni sínu, myndaröðinni "Oracles" alls um 250 myndum.

Í NÓVEMBER og desember verðar sýnd 17 valin verk Karls Einarssonar Dunganons, hertoga af Sankti Kildu, í Kaffistofu Listasafns Íslands.

Dunganon ánafnaði íslenska ríkinu öllu safni sínu, myndaröðinni "Oracles" alls um 250 myndum. Í safninu má finna nokkra myndaflokka m.a. mannamyndir, Íslandsmyndir og dýramyndir. Myndirnar eru margar hverjar málaðar við ljóð hans, en hann var skáld og orðinn goðsagnapersóna löngu áður en hann fór að mála. Karl Kerúlf Einarsson fæddist á Seyðisfirði árið 1897 en fluttist ungur með foreldrum sínum til Færeyja og síðan Danmerkur. Hann tók sér nafnið Dunganon í Færeyjum en gekk einnig undir öðrum nöfnum sem hann hafði búið til svo sem próf. Emarson og Carolus Africanus gandakallur. Verk hans endurspegla fjölbreytta furðuveröld sem ber vott um auðugt hugarflug listamannsins og frumlegheit. Myndirnar eru málaðar á pappír með olíukrít, tússi og vaxlitum sem hann ferniseraði síðan. Dunganon hefur orðið öðrum skáldum og listamönnum viðfangsefni, Halldór Laxness skrifaði tvær smásögur þar sem finna má ýmislegt um listamanninn en þær heita Völuspá á hebresku og Corda Atlantica. Þráinn Bertelsson gerði myndina Paradísarvíti og Björn Th. Björnsson skrifaði leikrit sem sýnt var í Borgarleikhúsinu 1992.

Í viðtali sem Björn Th. Björnsson átti við Dunganon og birt var í Vikunni árið 1960 segir hann: "Ég hef alla ævina leitast við að verða að engu og vera ekkert, og það er miklu erfiðara heldur en að vera eitthvað." Ævi hans var viðburðarík og óvenjuleg. Ferðaðist hann víða, dvaldi m.a. á Spáni, Frakklandi, Berlín, Brüssel og á Íslandi. Ljóð hans hafa verið gefin út á mörgum tungumálum en hann orti á færeysku, frönsku og dönsku og raunar ótal öðrum tungumálum, þar á meðal St. Kildamáli sem er löngu glatað tungumál.

Dunganon var um árabil búsettur í Kaupmannahöfn og lést þar 25. febrúar 1972. Yfirlitssýning var haldin á verkum hans í Bogasal Þjóðminjasafnsins í tengslum við Listahátíð 1976.