ÞEGAR þessi orð eru fest á blað er grenjandi rigning og hávaðarok, ekki þori ég að fullyrða hve margir metrar á sek. en vel yfir 20. Þó er hugurinn ekki við veðrið og veturinn, sem nú er genginn í garð, heldur vorið góða, grænt og hlýtt.

ÞEGAR þessi orð eru fest á blað er grenjandi rigning og hávaðarok, ekki þori ég að fullyrða hve margir metrar á sek. en vel yfir 20. Þó er hugurinn ekki við veðrið og veturinn, sem nú er genginn í garð, heldur vorið góða, grænt og hlýtt. Mig langar að minna á vorkomuna og skemmtilega aðferð til að fagna hækkandi sól og gróanda. Ja, aðferð, það er að sjálfsögðu klaufalegt orðaval, en mér dettur ekkert betra í hug núna.

Fyrstu blómin, sem lifna í görðum á vorin, eru oftast laukblóm. Í Reykjavík byrja fyrstu krókusar og vetrargosar oft að blómstra í marslok, ef vel viðrar, en til að svo megi vera dugir ekki að fara í garðyrkjustöðina snemma vors og segja: Áttu ekki fallega krókusa handa mér núna. Ó, nei, maður þarf sjálfur að hugsa fram í tímann, haustið er tími vorlaukanna, þótt þetta hljómi reyndar dálítið kjánalega. En það er fátt einfaldara en að verða sér úti um handfylli af laukum og grafa þá niður á vel völdum stað. Svo er bara að bíða vorsins og sjá, þessi handfylli hefur breyst í skemmtilegt blómskrúð.

Já, þetta geta þeir, sem garðinn eiga, segir e.t.v. einhver. En ég sagði, grafa þá niður á vel völdum stað. Hann þarf ekki endilega að vera úti í garði, það eru margir, sem hafa gaman af gróðri, en eiga ekki garð. Þeir sem rækta á svölum, þurfa alls ekki að fara á mis við vorblómstrandi lauka. Nú eru sumarblómin, sem svo fjölmargir rækta í krúsum og kerum á svölunum sínum, víðast farin að láta verulega á sjá. Það er ekki að undra, því þau hafa glatt okkur frá því seint í maí eða júníbyrjun. En blómgunartímanum í kerunum má flýta mikið með því að nota þau líka undir laukplöntur. Þá er bara að fjarlægja sölnuð sumarblómin á haustin, sem maður gerir hvort sem er, og nota síðan moldina áfram. Reyndar er ekki verra að setja dálítið af nýrri mold í kerin til að laukarnir fái meiri næringu, en það ætti að vera óþarfi fyrir þá sem vökva stundum með áburðarvatni síðla sumars. Og svo er að velja sér lauka við hæfi og leggja þá í moldu.

Flestir vorblómstrandi laukar, nema e.t.v. þeir með allra hæstu blómin, eru vel fallnir til keraræktunar. Auðvitað fer það eftir stærð ílátsins, hversu hávaxnar plöntur á að rækta. Margir eru með svalakassa, sem hafðir eru ofan á handriðum. Í þá ætti að setja eins lágvaxna lauka og unnt er, krókusa, vetrargosa og vorboða svo eitthvað sé nefnt. Krókusa, já, þá má nefna að til eru bæði svo kallaðir villikrókusar og garðakrókusar. Villikrókusarnir blómstra fyrr en garðakrókusarnir. Þeir eru oft mjög fallegir og hafa iðulega annan lit að utan en innan. Þar má t.d. nefna tegundina "Gipsy Girl", sem er gul en ytri krónublöðin með rauðbrúnum röndum, eða "Blue Bird", sem er með hvítum blómum, dökkfjólubláum að utan. Garðakrókusar blómstra seinna en villikrókusar og blóm þeirra eru til muna stærri. Þeir setja oft mikinn svip á garða á vorin, hvítir, gulir, purpurabláir. Eini gallinn er að þeir eru dálítið viðkvæmir fyrir roki og þola illa frost, séu blómin alveg útsprungin. Vetrargosinn er eitt af mínum uppáhalds laukblómum. Mér finnst hann fær í flestan sjó, þola frostakafla eftir að hann er farinn að vaxa. Eins má nefna postulínslilju, Puschkinia scilloides, sem er nálægt 15 sm á hæð, hvít með ljósbláum röndum, síberíulilju, Scilla sibirica, sem til er bæði í bláum og hvítum litum og perlulilju, Muscari, sem til eru ýmis afbrigði af, flest fallega blá. Allir þessir laukar, sem hér hafa verið nefndir, eru bæði litlir og lágvaxnir og þá þarf aðeins að setja á liðlega 5 sm dýpi.

Túlipana og páskaliljur er líka gaman að rækta í kerum. Til eru lágvaxin afbrigði af báðum tegundum. Þar læt ég nægja að nefna villitúlipana, eins og Tulipa tarda, eða kaupmannatúlipana, en það er ekkert til fyrirstöðu að rækta stórvaxnari tegundir. Eins eru til smávaxnar páskaliljur eins og febrúarlilja, sem til eru ýmsar tegundir af. Það er líka skemmtilegt að setja ýmsar tegundir lauka í sama ker, perluliljan fer t.d. vel með bæði túlipönum og páskaliljum. Ég hef heyrt af konu, sem gróðursetur laukana sína á mörgum hæðum. Neðst í kerið setur hún venjulegar páskaliljur og síðan mold yfir. Þá koma túlipanar, síðan perluliljur og efst krókusar og alltaf setur hún moldarlag á milli. Ég hef því miður ekki sér kerið hennar að vorlagi, en þetta hljómar mjög spennandi í mínum eyrum.

Hvernig væri að verða sér úti um dálítið af laukum núna, þeir fást enn í verslunum og hjá laukainnflytjendum eins og Garðyrkjufélaginu, og eru stundum á tilboði í upphafi vetrar. Prófa að setja í ker og bíða svo vorsins. En - en, það gildir það sama með lauka í kerum og lauka í görðum. Þeir þola ekki að standa í bleytu, þá fúna þeir. Þeir sem setja lauka í ker þurfa að gæta þess sérlega vel að þau standi ekki hálffull af vatni. Gott er að setja greinar, sem þarf að taka burtu til að jólatréð komist í fótinn, yfir eða ofan í laukakerið. Það getur bæði verið til skrauts á svölunum og svo hlífir það fyrstu gróðurbroddunum snemma vors.

S.Hj.