MÁLEFNI nektardansstaða hafa verið til umfjöllunar að undanförnu og er vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli hafa samþykkt tillögu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra sem miðar að því að gera sveitarfélögum kleift að setja skilyrði fyrir þeirri...

MÁLEFNI nektardansstaða hafa verið til umfjöllunar að undanförnu og er vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli hafa samþykkt tillögu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra sem miðar að því að gera sveitarfélögum kleift að setja skilyrði fyrir þeirri starfsemi sem þar fer fram. Með þessum hætti verður hægt að koma böndum á starfsemina, en ýmsum sögum fer af því hvað þar gerist á bak við tjöldin. Hér skal ekki lagt mat á sannleiksgildi slíkra sögusagna eða tekin afstaða til þess hvort eigi yfir höfuð að leyfa ungum stúlkum að tína af sér spjarirnar fyrir borgun eða hvort sporna eigi gegn því að fullorðnir karlmenn sói fjármunum sínum á slíkum stöðum. Sjálfsagt er þó að koma lögum yfir þessa starfsemi og þótt fyrr hefði verið.

Í núgildandi lögum um veitinga- og gististaði er hvergi minnst á starfsemi næturklúbba og því síður nektardansstaði. Þessir staðir hafa því fram til þessa ekki þurft sérstakt starfsleyfi. Í tillögu samgönguráðherra er hins vegar gert ráð fyrir þeim breytingum á lögunum að næturklúbba verði þar sérstaklega getið og að nektardansstaðir heyri undir næturklúbba. Með því geta sveitarfélög, eða þeir aðilar sem fara með leyfisveitingu, sett ákveðin skilyrði fyrir starfseminni og þar með gert yfirvöldum kleift að fylgjast betur með því sem þarna fer fram. Jafnframt má gera ráð fyrir að skattayfirvöld eigi eftir lagasetninguna auðveldara með að fylgjast með fjármálum og fjárstreymi á þessum stöðum, en því hefur verið fleygt að sumar stúlkurnar geti haft hátt í milljón krónur á mánuði í tekjur og ekkert gefið upp.

VÍKVERJA er ljúft, í framhaldi af þessari umræðu, að koma á framfæri kvörtun frá vinkonu sinni vegna djarfra auglýsinga frá þessum nektarbúllum, sem dembt er yfir fólk þar sem síst skyldi. Vinkonan fór með ungri dóttur sinni í þrjú-bíó á sunnudegi, nánar tiltekið á kvikmyndina um Línu langsokk í Laugarásbíói, og eins og venja er komu auglýsingar á tjaldið fyrir sýningu. Það sem fór fyrir brjóstið á vinkonu Víkverja var að þar á meðal var auglýsing frá nektardansstað, með djörfum sýnishornum af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Á sýningunni voru aðallega börn og foreldrar þeirra og því vaknar sú spurning hvort ekki sé tekið mið af gestum kvikmyndahússins, þegar ákveðið er hvaða auglýsingar skuli sýndar fyrir hverja sýningu? Fróðlegt væri að fá skýringar forsvarsmanna kvikmyndahússins á þessu.

Vinkonan hafði ennfremur orð á því að í tengslum við fréttaflutning af málefnum nektardansstaða í sjónvarpi að undanförnu væru iðulega sýndar myndir af hálfberum ungum stúlkum að skaka sér upp við súlu og fannst henni ósmekklegt, svo ekki sé meira sagt, að hafa þetta fyrir börnunum, sem mörg sitja fyrir framan sjónvarp á fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Þessum kvörtunum er hér með komið á framfæri við hlutaðeigandi aðila.