GÓÐAN dag, góðir og fallegir landsmenn og -konur. Ég færi Íslendingum öllum nær og fjær bjartsýniskveðjur. Ég las nefnilega um daginn grein eftir litla konu að austan, sem ég man ekki lengur hvað heitir.

GÓÐAN dag, góðir og fallegir landsmenn og -konur. Ég færi Íslendingum öllum nær og fjær bjartsýniskveðjur. Ég las nefnilega um daginn grein eftir litla konu að austan, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Hún breiddi í grein sinni út fagnaðarerindi álsins, já, blessað álið. Álið sem rétt eins og blessað fiskeldið og loðdýraræktin er komið til að færa okkur úr fátæktarbölvun þeirri sem Íslendinga hefur plagað gegnum árin. Blessað álverið á nú að koma til bjargar gervöllum Austfjörðum eins og prinsinn á hvíta hestinum. (Að vísu verður hestur álversins örlítið koksgrár af útblæstrinum, en við skulum nú ekki dvelja við slík smáatriði.) Já, nú þurfa Austfirðingar ekki lengur að hafa neinar áhyggjur af því hvort unga fólkið þeirra fær vinnu. Unga fólkið sem fer svo bláeygt og saklaust suður að mennta sig og kemst bara ekki heim vegna þess að engin störf eru fyrir menntafólk á Austurlandi. Frelsari vor er nú fæddur í formi þungaiðju. Nú getur hún Sigga notað sálfræðimenntun sína til hins ýtrasta í kaffiteríunni og hagfræðimenntunin hans Péturs mun svo sannarlega nýtast honum vel í kerskálanum. Íslendingar eru sko ekki feimnir við að láta stimpla sig sem múldýr hins vestræna heims.

Nú geta Austfirðingar óhræddir haldið áfram á þeim vegi sem þeir hafa hingað til fetað. "Vel hefur stóri Kláus við okkur gert og höfum við nú allt til alls" heyri ég þá dæsa ánægjulega, kampakáta yfir því að þurfa ekki að sýna þetta leiðinda frumkvæði og hinn grábölvaða frumleika í atvinnusköpun. Hver þarf hátækniiðnað og samskiptafyrirtæki, þegar við getum tekið einfalda álverspillu og allt verður miklu betra og gengur miklu hraðar, svona rétt eins og Hörbalæf eða Neitjursón eða hvaðanúheitir. Nei, lofum guð og álverið. Við skulum ekkert vera að hugsa um fortíðina. Nútíðin er það sem skiptir máli, og álverið er núna. Nú er sjávarútvegurinn að dala og þá er gott að geta hoppað yfir á annan iðnað sem krefst álíka mikillar hámenntunar. Ónefndur þingmaður frá ónefndum stjórnarflokki sem ég talaði við fyrir kosningar sagði mér að einhvers staðar verði að setja allt fólkið sem ekki er vel læst eða er tornæmt. Og hvar er betra að setja alla einföldu og fáfróðu Íslendingana en á Austfirði, utan ferðamannaleiðar (sérstaklega eftir að álverið rís). Svo er nú alveg frábært að Austfirðingar fá frábæra útivistaraðstöðu í uppistöðulóninu fyrir Fljótsdalsvirkjun. Þeir geta stundað vatnaskíði og kanóaferðir og dundað sér við að veiða þríeyga fiska í menguðu jökulvatninu. Og svo þegar álverinu verður lokað vegna lækkandi álverðs eftir tíu ár, þegar ál fer úr tísku og eitthvað annað tekur við, geta Austfirðingar notað húsið sem kvikmyndaver eða menningarhöll fyrir allt unga fólkið sem langar svo mikið til að búa þar. Og allt rafmagnið sem selt verður dýrum dómum í blessaðan þungaiðnaðinn svona rétt til að bæta upp fyrir gæsadrápin og fjallkonuránið. Jaseisei, það borgar sig sko vel þessa dagana að ræna fjallkonur, svona rétt eins og pítsusendla í Breiðholtinu. Íslendingar eiga eftir að mala gull á þessum bísness.

Því segi ég með ykkur, Austfirðingar: Fuss og svei með allar hugmyndir um nýbreytni og frumleika. Það er bara fyrir einhverja fúskara og heimspekinga sem ekkert vita í sinn haus og aldrei hafa migið í saltan sjó. Fuss og svei með allar hugmyndir um vistvænt Ísland. Finnur Ingólfs, Halldór Ásgríms og Siv Friðleifs eru jú öll búin að lýsa því yfir að Ísland skuldi heiminum svo mikla mengun að við dönsum á línunni með að verða þróunarland. Tröll hirði alla þessa útivistarblesa sem fíla eitthvað annað en jeppaferðir og lax og kjósa að ganga á jökla og hanga í einhverjum afdönkuðum mýrarholum.

Eyjabakkar eru hvort eð er ekkert smart. Allir þessir hagfræðingar og verkfræðibullukollar sem væla um það að 210 megawöttum Fljótsdalsvirkjunar sé kastað á glæ með því að eyða orkunni í álver geta bara étið það sem úti frýs.

Austfirðingar hafa nú tækifæri til að sýna það að þeir eru eins þröngsýnir og hver annar úr öðrum landshlutum og þeir ætla að nýta sér það tækifæri til fulls. Áfram Austfirðir!!!

Frá Svavari Knúti Kristinssyni: