NÝLEGA var í áróðursþætti sjónvarpsins ("Eldhúsi sannleikans") reynt að réttlæta áfengisdrykkju með vísan til Biblíunnar, sem stjórnandinn hafði þar tiltæka að viðstöddum biskupi.

NÝLEGA var í áróðursþætti sjónvarpsins ("Eldhúsi sannleikans") reynt að réttlæta áfengisdrykkju með vísan til Biblíunnar, sem stjórnandinn hafði þar tiltæka að viðstöddum biskupi. Þó fórst fyrir hjá þessum herrum að geta þess, að á mun fleiri stöðum í Biblíunni er varað við drykkjuskap en að vínið sé vegsamað. Þá er bindindi talið til dyggða í helgri bók, svo og hið góða fordæmi.

Í öðrum þætti sama "eldhúss" kom síðar fram safnaðarprestur í Reykjavík og varpaði fram skemmtilegri samlíkingu. Benti hann stjórnandanum og öðrum "vínsnobbara" (lækni), sem þar var, á hæfileika kýrinnar og Krists við að breyta vatni í vín, hvernig svo sem það á að hafa gerst, en vinir Bakkusar guma af, gefur kýrin okkur annan drykk, hina hollu og heilsusamlegu mjólk, sem franskur ráðherra á árum áður hvatti landa sína til að drekka í stað áfengis. Þá mátti ráða af orðum sama prests að hann vildi líkja brennivíninu við sköpunarverk djöfulsins. Eru það orð að sönnu.

Hvað sem líður yfirburðum kýrinnar í þessum efnum má telja víst, að væri Kristur uppi á okkar dögum mundi hann aldrei leggja blessun sína yfir afleiðingar áfengisdrykkju, slysin, sjúkdóma, afbrot, heimilisböl og aannan ófarnað, sem áfenginu fylgir.

Annars er með ólíkindum hversu þjónar Bakkusar ganga langt í því að útbreiða áfengisneysluna og með því auka það tjón, sem henni fylgir. Það er ekki nóg að hið opinbera stuðli skipulega að söluaukningu áfengis með fjögun sölustaða og með því að hampa áfengum drykkjum óspart í nær öllum samkvæmum, heldur þarf nú einnig að nota sjónvarpið til áfengiskynningar eins og gert hefur verið í fyrrnefndum þáttum.

Það er til lítils að berjast gegn öðrum fíkniefnum meðan áfengið er látið flæða sem víðast og beinlínis stefnt að útbreiðslu þess. Staðreyndin er sú, að áfengið er oftast undanfari neyslu annarra eiturlyfja og í raun hættulegast, þar sem það veldur mestu tjóni og óhamingju. Og áfengið er jafn hættulegt og skaðlegt, þótt það flokkist undir að vera löglegt fíkniefni.

Það er ekki að ástæðulausu, að ýmis trúarbrögð fordæma alla áfengisneyslu, enda hefur einn merkasti mannvinur allra tíma, Albert Scweitzer, sagt áfengið vera "versa óvin mannsins, trúarlega og siðferðilega séð". Þau sannindi ætti fólk að hafa hugföst.

Frá Árna Gunnlaugssyni: