TÖLVUNEFND, sem hefur það lögboðna hlutverk að setja tækni-, öryggis- og skipulagsskilmála fyrir gerð og starfsrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði, hefur gert samninga við tvö fyrirtæki um sérfræðilega ráðgjöf við gerð fyrrnefndra skilmála.

Gerður hefur verið samningur við Verk- og kerfisfræðistofuna hf. í Reykjavík og Admiral Management Services Limited í Englandi. Verk- og kerfisfræðistofan hefur stundað ráðgjöf á sviði upplýsingatækni frá því árið 1982 og hefur meðal annars í þjónustu sinni sérfræðing í öryggismálum upplýsingakerfa. Fyrirtækið hefur unnið fjölmörg verkefni fyrir dómsmálaráðuneytið og réttarkerfið í landinu. Nefna má hönnun og þróun dómsmálaskrár fyrir héraðsdómstóla landsins og ráðgjöf vegna upplýsingakerfis sem nú er unnið að vegna Schengen-samkomulagsins. Fyrirtækið hefur ekki haft önnur afskipti af gagnagrunni á heilbrigðissviði eða starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar efh., segir í fréttatilkynningu frá tölvunefnd.

Admiral Management Services er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni sem hefur 2.500 manns á launaskrá. Fyrirtækið er skráð í kauphöllinni í London og heldur úti skrifstofum víða um heim. Fyrirtækið hefur á sínum snærum yfir 70 sérfræðinga í öryggismálum og er eitt stærsta sjálfstæða fyrirtækið í heimi á sviði öryggismála í upplýsingatækni.