SAMSTARFSNEFND um lögreglumálefni samþykkti nýlega að leita eftir samvinnu Borgarskipulags um ráðstafanir til að takmarka umferð gangandi um Grjótaþorp að næturlagi.

SAMSTARFSNEFND um lögreglumálefni samþykkti nýlega að leita eftir samvinnu Borgarskipulags um ráðstafanir til að takmarka umferð gangandi um Grjótaþorp að næturlagi.

Að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og eins nefndarmanna, er ekki ljóst hvernig leiða verður leitað. "Menn eru að velta fyrir sér hvað Borgarskipulag geti gert. En það sem vakir fyrir okkur er að kanna hvort hægt sé að finna einhverjar leiðir til að takmarka ónæði fyrir fólk sem býr í Grjótaþorpinu," sagði Karl Steinar.

Ýmsar tillögur hafa verið ræddar af samstarfsnefndinni, en Karl Steinar sagðist ekki vilja tjá sig um þær frekar. Betra væri að hugmyndir um lausn málsins kæmu frá Borgarskipulagi, sem hefði góða reynslu af skipulagningu hverfa.

"Menn eru líka að velta fyrir sér í þessu sambandi hver þróunin hefur verið varðandi lengingu afgreiðslutíma veitingastaða," sagði Karl Steinar. En hann sagði að kanna þurfi hvort íbúar Grjótaþorps verði varir við aukið ónæði í kjölfar þessarar breytingar. Of snemmt sé þó að meta afleiðingar af breyttum afgreiðslutíma, þó tilraun gangi almennt vel.

Sveigjanlegur afgreiðslutími festur í sessi

Að sögn Helga Hjörvars, forseta borgarstjórnar, leggur verkefnisstjórn um afgreiðslutíma vínveitingahúsa, það til við borgarráð að tilraunin með frjálsan afgreiðslutíma verði framlengd um níu mánuði. Sveigjanlegur afgreiðslutími hafi reynst vel og ekki borist kvartanir nema frá íbúum Grjótaþorps, en brugðist hafi verið við þeirri kvörtun með því afnema hann í nágrenni Grjótaþorps.

Helgi Hjörvar sagðist enn fremur telja að borgarráð festi endanlega í sessi reglur um sveigjanlegan afgreiðslutíma næsta sumar.