ÁRNI Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi R-listans, sagði "hina dauðu hönd menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins" hafa haldið leikskólunum og þar með sveitarfélögunum í herkví með því að taka með engum hætti þátt í að byggja upp leikskólana í...

ÁRNI Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi R-listans, sagði "hina dauðu hönd menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins" hafa haldið leikskólunum og þar með sveitarfélögunum í herkví með því að taka með engum hætti þátt í að byggja upp leikskólana í landinu í þeim anda sem unnið hefur verið að víða um land undanfarin ár og almenningur vill að unnið sé til hagsbóta fyrir leikskólastigið. Árni sagði Sjálfstæðisflokkinn ávallt hafa sýnt að hann væri á móti leikskólum. Þannig brást hann við ásökunum sjálfstæðismanna um úrræðaleysi meirihluta borgarstjórnar í leikskólamálum og svikin kosningaloforð á borgarstjórnarfundi í fyrrakvöld.

Árni sagði brýnt að slá skjaldborg um leikskólann og kalla alla þá sem láta sig varða velferð leikskólans til ábyrgðar og varðstöðu. Hann segir að reynt sé að nota þá tímabundnu erfiðleika sem nú séu til staðar á nokkrum leikskólum borgarinnar til að leggja til atlögu við leikskólann og skorar á starfsmenn leikskólanna, stéttarfélög þeirra, foreldra og félög þeirra að láta ekki blekkjast af áróðri Sjálfstæðisflokksins heldur taka höndum saman með meirihlutanum í borgarstjórn um að leysa þau úrlausnarefni sem við blasa.