NAUÐSYNLEGT er að auka verulega samstarf og samvinnu sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu næstu árin, að því að fram kom á ráðstefnu sem haldin var á vegum svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið í gær.

NAUÐSYNLEGT er að auka verulega samstarf og samvinnu sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu næstu árin, að því að fram kom á ráðstefnu sem haldin var á vegum svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið í gær. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður vinnuhópa sem fjölluðu um mismunandi þætti í framtíðarsýn höfuðborgarsvæðisins og kom berlega í ljós að sveitastjórnarmenn hafa hug á að leggja aukna áherslu á samvinnu og samstarf í framtíðinni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði að nauðsynlegt væri að endurskipuleggja Samtök sveitarfélaga á höfðuðborgarsvæðinu, eða leggja þau jafnvel niður í núverandi mynd.

Ingibjörg Sólrún kynnti niðurstöður vinnuhóps um samstarf sveitarfélaga, en í þeim hópi voru jafnframt allir sveitarstjórar á höfuðborgarsvæðinu. Telur hópurinn að mikilvægt sé að samstarf sveitarfélaganna í SSH verði endurskipulagt og að sveitarfélögin sameinist um ákveðna framtíðarstefnu, eða ímynd, m.a. til að nýta ákveðin sóknarfæri. Einnig kom fram að höfuðborgarsvæðið sé í raun eitt atvinnu- og búsetusvæði sem þurfi að standast samkeppni við erlendar borgir um menntað og hæft vinnuafl.

Í samtali við Morgunblaðið sagði borgarstjóri að engum á ráðstefnunni, sem tekið hefði þátt í sveitarstjórnarstörfum á höfðuborgarsvæðinu, blandist um það hugur að mjög mikilvægt væri að koma á auknu og betra samstarfi og ekki eins brokkgengu samstarfi og verið hefur. "Það er bara markmið í sjálfu sér að koma því á. Ég held að menn finni meira fyrir þessu nú en áður, vegna þess að menn skynja mjög sterkt að höfuðborgarsvæðið, sem heild, er í samkeppni við borgarsamfélög í útlöndum," sagði Ingibjörg Sólrún.

Samtök sveitarfélaganna máttlítil

Hún segist líka telja að menn hafi áttað sig á því að sveitarfélagamörkin, sem í huga sveitarstjórnarmanna skipti ákaflega miklu máli, skipti fólk orðið sáralitlu máli. Fólk hreyfi sig mikið á milli bæjarfélaga og samsami sig frekar þeim hverfum og bæjarhlutum sem það býr í, en ekki einhverjum stjórnsýslumörkum.

Ingibjörg Sólrún segir að talsvert mikið vanti upp að SSH hafi nógu sterka pólitíska stöðu og að þeim skorti einnig vald til ákvarðanatöku. Hún telur að gefa þurfi samtökunum meiri slagkraft og mikilvægi. Hún segist frekar hlynnt þeirri hugmynd að hafa sameiginlega stjórn yfir ákveðnum málaflokkum, en sveitarfélögin haldi sjálfstæði sínu í öðrum. Hins vegar telur hún ekki æskilegt að sameina öll sveitarfélögin, en við það yrði til alltof stórt og viðamikið sveitarfélag. Sveitarfélögin eigi frekar að sameinast um að framselja ákveðið vald í tilteknum málaflokkum þar sem það er hagkvæmt, en á öðrum sviðum geti verið mikilvægt að hafa ákveðna sérstöðu og sveigjanleika til að beita mismunandi þjónustu.

Hættum að ala á togstreitu og ríg

"Mér finnst ákveðið tilefni til bjartsýni og að kominn sé sameiginlegur skilningur á því að við þurfum að taka á þessum málum. Ég er hins vegar hrædd við það, af fenginni reynslu, að þegar við nálgumst lokapunktinn í svæðisskipulaginu og menn þurfa að standa andspænis erfiðum ákvörðunum, að þá fari einhverjir að hlaupa út undan sér, líka til að skora pólitísk stig heimafyrir. Það er ákveðin hætta og mikilvægt að menn átti sig á þessari hættu."

"Það er mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er eitt búsetusvæði og þetta er eitt atvinnusvæði. Og að við sveitarstjórnarmenn hættum að ala á togstreitu og ríg í þessum málum. Í dag gerum það alveg óspart, sem er hvorki sveitarfélögunum, atvinnulífinu né íbúunum til hagsbóta," segir Ingibjörg Sólrún.