MAÐUR og kona, sem lokuðust inni við Svartárbotna á Kili vegna ófærðar á miðvikudag, fundust heil á húfi í gær. Björgunarsveitarmenn úr Biskupstungum og Grímsnesi fóru á tveimur bílum í gærmorgun til að grennslast fyrir um fólkið, komust á staðinn skömmu fyrir klukkan tvö eftir erfiða ferð og var fólkið þá í skála við Svartárbotna.

Fólk fór á tveimur bílum að skála við Svartárbotna á mánudag, og var parið sem leitað var að á öðrum þeirra. Hinn bíllinn hélt til byggða á þriðjudag, en parið ætlaði að dvelja fram á næsta dag í skálanum. Mikil snjókoma var um nóttina, og lokaðist því leiðin og þau urðu því að hafast áfram við í skálanum.