FINNUR Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist tilbúinn að taka tillit til ákveðinna þátta í athugasemdum þeim sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert á nýsamþykktum lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

FINNUR Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist tilbúinn að taka tillit til ákveðinna þátta í athugasemdum þeim sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert á nýsamþykktum lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Honum finnst þó óeðlileg sú krafa ESA að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar verði óskert þótt allt að 20% af framleiðslukostnaði verði til erlendis.

"Frumvarpið [um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi] var afgreitt á tiltölulega skömmum tíma í vor og því fengum við ekki formlega afstöðu ESA til þess áður en þar var lagt fram á Alþingi. Nú þegar ESA skoðar lögin gerir hún einkum athugasemdir við þrjá þætti. Í fyrsta lagi telur hún að það þurfi að koma til sterkari áhersla á menningarlegan tilgang laganna. Í öðru lagi telur hún óeðlilegt að hærra endurgreiðsluhlutfall sé til framleiðslu á 120 milljóna kr. kvikmynd heldur en á 80 milljóna kr. kvikmynd. Og í þriðja lagi vill ESA að endurgreiðslan verði óskert þótt allt að 20% af framleiðslukostnaði kvikmyndar falli til erlendis."

Finnur segist tilbúinn að taka tillit til tveggja fyrstu þáttanna og hefur komið því á framfæri til ESA en segist ósammála þriðja þættinum, eins og áður sagði. "Frumvarpið gengur út á að endurgreiða þann innlenda kostnað sem til fellur og markast af því. Ef endurgreiðslan yrði hins vegar óskert þótt allt að 20% af framleiðslukostnaði kvikmyndarinnar yrði til erlendis værum við að greiða niður kostnað sem til yrði í öðru landi," segir ráðherra.