VIÐAMIKLAR breytingar hafa verið gerðar á húsnæði og innra skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins. Karl Steinar Guðnason, forstjóri stofnunarinnar segir að með þessu sé verið að búa hana undir nýja öld.

VIÐAMIKLAR breytingar hafa verið gerðar á húsnæði og innra skipulagi Tryggingastofnunar ríkisins. Karl Steinar Guðnason, forstjóri stofnunarinnar segir að með þessu sé verið að búa hana undir nýja öld. "Við erum búin að koma allri starfsemi undir eitt þak sem hefur mikla þýðingu fyrir viðskiptavinina auk þess sem innra skipulag verður mun skilvirkara." Framkvæmdir við húsnæði Tryggingastofnunar á Laugavegi hófust fyrir rúmu ári og var verið að leggja lokahönd á þær á föstudag.

Karl Steinar segir að svigrúm hafi myndast til þess að bæta starfsemi stofnunarinnar eftir að ákvörðun hefði verið tekin um að fella ákvæði um skipulag stofnunarinnar. Segist hann vona að stofnunin sé sú síðasta sem þarf að búa við að lög séu um hvernig skipulag hennar skuli háttað.

Kostnaður við framkvæmdirnar hljóðar upp á 280 milljónir. Tryggingastofnun fjármagnar hluta af þeirri upphæð með sölu fasteigna en afgangurinn kemur úr ríkissjóði.

Öll þjónusta á einum stað

Meðal helstu breytinga á þjónustu stofnunarinnar er ný þjónustumiðstöð sem verður rekin á fyrstu hæð í húsnæði stofnunarinnar. Dögg Káradóttir forstöðumaður segir að þjónustumiðstöðin komi til með að breyta miklu fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar. "Hægt verður að reka öll sín mál í miðstöðinni og því þarf fólk ekki lengur að fara á marga staði til þess að fá úrlausn sinna mála. Einnig erum við búin að aðskilja vinnslu og úrlausn mála og það kemur til með auka öryggi og gera alla þjónustu skilvirkari."

Í kjölfar breytinga á stofnuninni hefur hún opnað heimasíðu á Netinu, en slóðin þar er tr.is. Þar er hægt að ná í allar upplýsingar um almannatryggingakerfið og fleiri mál sem tengjast því. Í gegnum heimasíðuna verður hægt að fá sent til sín bæklinga og umsóknareyðublöð frá stofnuninni.

Karl Steinar segir að þessu sé verið að færa Tryggingastofnunina nær fólkinu og áform séu um að gera Netið að stærri þætti í starfsemi stofnunarinnar. "Í náinni framtíð verður fólki gert kleift að reikna þær bætur út sem það á rétt á á heimasíðunni. Einnig mun verða hægt að afgreiða vottorð gegnum heimasíðuna svo einhver dæmi séu nefnd um áform."