NESBÚ ehf. á Vatnsleysuströnd hefur fest kaup á vélasamstæðu til að sjóða egg og hreinsa af þeim skurnina. Eggin eru seld þannig tilbúin til notkunar, meðal annars til fyrirtækja sem framleiða samlokur og salat.

NESBÚ ehf. á Vatnsleysuströnd hefur fest kaup á vélasamstæðu til að sjóða egg og hreinsa af þeim skurnina. Eggin eru seld þannig tilbúin til notkunar, meðal annars til fyrirtækja sem framleiða samlokur og salat.

Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Nesbús, segir að fyrirtæki sem nota mikið af eggjum við framleiðslu sína hafi haft óhagræði af því að fá eggin ekki tilbúin. Þau hafi verið með sérstakan mannskap í að sjóða egg og taka af þeim skurnina, allt upp í tvo til þrjá starfsmenn. Jafnvel séu dæmi um að þau hafi dregið úr notkun eggja af þessum ástæðum.

Vélarnar sem Nesbú hefur nú sett upp í kjötvinnslu sem fyrirtækið á aðild að, Esju í Kópavogi, eru þær fyrstu sinnar tegundar sem fluttar eru til landsins. Eggin eru gufusoðin og sett í vélar sem brjóta skurnina, taka hana af og skola eggin. Síðan er harðsoðnum eggjum pakkað í fötur af mismunandi stærð.

Tilbúnu eggin eru komin á markað. Björn segir að fyrirtæki í samloku- og salatgerð kaupi vöruna, einnig mötuneyti, hótel- og veitingahús og smurbrauðsstofur. "Með því að bjóða þessa þjónustu vonumst við til að geta aukið notkun eggja. Niðurskorin egg eru ódýrasta áleggið á markaðnum og það þarf að gefa fyrirtækjunum kost á að nota þau," segir Björn.