Á VEFSÍÐU Grósku, sem er gefin út á vegum ungra jafnaðarmanna er fjallað um Evrópumálin og því fagnað að utanríkisráðherra skuli nú hafa tekið af skarið, eins og það er orðað.

GRÓSKA segir: "Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að fram fari hlutlaus úttekt á kostum og göllum þess að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Loksins virðist því sem hreyfing sé að komast á þetta mál sem verið hefur í frysti frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum."

Gamalt baráttumál

OG ÁFRAM segir: "Það hefur lengi verið baráttumál margra að kannað yrði í alvöru hverjar afleiðingar innganga Íslands í ESB yrðu. Aðild að ESB er ein stærsta pólitíska spurningin sem uppi hefur verið á þessum áratug en þrátt fyrir það hefur ekki verið vilji til þess að leyfa fólki að taka afstöðu út frá raunverulegum og nauðsynlegum grunnupplýsingum. Menn hafa þráttað og þrefað um það hverjar afleiðingarnar yrðu og hefur þá hver og einn lýst sínum eigin hugmyndum eða vitnað í hugmyndir sér hugnanlegra fræði- eða stjórnmálamanna erlendis.

Upplýsingar hafa stangast á og flækt málið svo mjög að fæstir landsmenn geta mögulega gert sér grein fyrir hvað muni gerast þegar Ísland gengur í ESB. Þess vegna fagnar Vefrit Grósku þessu frumkvæði utanríkisráðherra þó þetta hefði átt að gerast fyrir löngu. Þær upplýsingar sem væntanlega munu koma fram verða kærkominn grundvöllur fyrir málefnalega umræðu um kosti og galla aðildar. Þá fyrst er raunhæft að ætla að fólk geti tekið afstöðu sem er byggð á skynsemi. Og það skal jafnframt á það bent hér að þeir heimsendaspádómar um paradísarmissi Íslendinga sem nú heyrast frá VG og öðrum íhaldsmönnum þegar rætt er um ESB eru gamlar lummur. Þær voru síðast notaðar þegar EES samningurinn var gerður en þá spáðu m.a. Steingrímur J. og Ögmundur illa fyrir þjóðinni og sjálfstæði hennar."

Lengsta hagvaxtarskeið sögunnar

LOKS segir Gróska: "Síðan hefur ríkt eitt lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hérlendis þannig að þeir reyndust ekki spámannlega vaxnir þá og það eru þeir ekki heldur nú þó að þeim hafi bæst liðsauki úr röðum íhaldsmanna Sjálfstæðisflokksins. Það verður fróðlegt að heyra hvernig þeir bregðast við þegar þeir þurfa að fara að byggja málflutning sinn á efnislegum rökum á grundvelli skýrslu utanríkisráðherra."