STARFSMENN Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma verða til staðar í Suðurgötukirkjugarði, Fossvogskirkjugarði og Gufuneskirkjugarði á sunnudaginn kemur, á allraheilagramessu, milli kl. 14 og 18 til að aðstoða fólk og vísa til vegar.

Síðastliðin tvö ár hafa starfsmenn Kirkjugarðanna og prestar Reykjavíkurprófastsdæma haft samvinnu um aukna þjónustu við aðstandendur á allraheilagramessu og verður svo einnig nú. Prestar prófastsdæmanna hafa skipulagt helgihald í Fossvogskirkju með vandaðri tónlistardagskrá í umsjón organista og kórfólks. Prestar lesa ritningarlestra, fara með bænir og veita viðtöl. Reynslan hefur sýnt að þörf fyrir slíka þjónustu er mjög mikil, segir í fréttatilkynningu. Á þessum degi gefst fólki sem fyrr kostur á að sitja inni í kirkjunni, hlusta á tónlist, íhuga og taka þátt í bænagjörð.

Kirkjugarðar hafa ætíð verið staður þar sem aðstandendur geta komið og ræktað minningu látinna ástvina. Fossvogskirkja verður opin milli kl. 14 og 18.