Höfundur texta: Karl Ágúst Úlfsson. Höfundur tónlistar: Hjálmar H. Ragnarsson. Leikstjóri: Brynja Benediktsdóttir. Hönnuður leikmyndar og búninga: Rannveig Gylfadóttir. Útsetjari og tónlistarstjóri: Óskar Einarsson. Ljóshönnun: Ævar Gunnarsson. Leikarar: Agnar Jón Egilsson, Erla Ruth Harðardóttir, Karl Ágúst Úlfsson og Vala Þórsdóttir. Fimmtudagur 4. nóvember.

KARL Ágúst Úlfsson er fjölhæfur höfundur sem hefur skrifað allt frá hádramatískum verkum niður í lauflétta kabaretta fyrir leiksvið en fyrst og fremst hefur hann samið fyrir sjónvarp, enda okkar mikilvirkasti höfundur gamanmála í þeim miðli - sennilega frá upphafi Íslandsbyggðar.

Hér tekst hann enn og aftur á við kabarettformið, en á gjörólíkum forsendum en áður. Í þessu verki er gríðarmikið kjöt á beinunum, safaríkt og lokkandi. Nýsamsettur og ferskur leikarahópur, styrk leikstjórn og afar fjölbreytt útlit sýningarinnar gæða textann lífi. Einstaklega skemmtileg tónlist með laglínum sem grípa mann við fyrstu hlustun bætir um betur. Sýningin er eins og að komast í nýmeti á þorranum - langþráð og endurnærandi.

Fyrir þá sem hafa unun af því að greina menningarfyrirbæri í frumparta sína og rýna í hvernig þau verða til og virka í samfélaginu er um auðugan garð að gresja. Sjálfsmyndarfræðingar sérstaklega kæmust hér í feitt. Verkið fjallar í heild um hópsjálfsmynd þessarar litlu þjóðar (jafnt minnimáttarkennd sem mikilmennskubrjálæði) og veltir sér upp úr þeim fjölmörgu klisjum sem orðið hafa til þar við komandi í aldanna rás.

Athygli vekja þeir kaflar þar sem höfundur ástundar naflaskoðun og snýr sér að því að skyggna eigið sjálf, sérstaklega sem við kemur stöðu hans sem textasmiðs. Pælingar um hinn óörugga höfund sem fær gagnrýni á texta sinn frá leikurunum, texta sem fjalla um okkar sjálfsmyndarskertu þjóð - öll súpan býður upp á ýmsar vangaveltur um sjálfsöryggi hóps jafnt sem einstaklings.

Verkið einkennist af mislöngum atriðum sem eru lauslega tengd saman. Það hefur verið töluvert stytt, en það mætti enn skera út einstaka atriði til að þétta sýninguna og styrkja. Kómíkin einkennist af orðaleikjum, spaugilegum aðstæðum og absúrd húmor - það er guðsþakkarvert að neðanþindarbrandararnir eru víðs fjarri (og að sjálfsögðu tæpt á því í sýningunni að svoleiðis texti líðist ekki). Ef tæpt er á pólitík er jafnvel örlítill broddur í gríninu, eitthvað sem er orðið alltof sjaldgæft í íslenskum gamanmálum.

Tónlist Hjálmars H. Ragnarssonar lyftir þessu safni stuttra grínþátta á hærra plan kabarettsins. Lögin eru einföld og mjög aðgengileg og höfundur er ófeiminn við að líkja eftir stíl ýmissa tónskálda, allt frá Weill til íslenskra sönglagahöfunda. Óskar Einarsson spilar svo hressilega undir á píanóið svo að íbúar Grjótaþorpsins geta vonandi notið tónlistarinnar með leikhúsgestum.

Vala Þórsdóttir er fremst meðal jafningja í leikarahópnum. Henni tekst að bregða sér í allra kvikinda líki og lifa sig innilega í stystu svipmyndir og framkalla áhrif þeirra á áhorfendum. Leikur hennar var í senn nýstárlegur, hnitmiðaður og einlægur.

Karl Ágúst Úlfsson sést alltof sjaldan á sviði. Krafturinn og einbeitingin sem einkenna leik hans er ekki öllum gefin. Þegar fylgst er með tilfinningaeimyrjunni sem kraumar undir niðri kemur upp sú hugmynd að það væri gaman að sjá hann fást við harmræn hlutverk. Í gamanleiknum stekkur Karli ekki bros - stíll hans er stíll þöglu grínistanna sem fær áhorfendur til að hlæja að gríninu en finna jafnframt til með þolandanum um leið.

Erla Ruth Harðardóttir er orðin æfð gamanleikkona og leikur af miklum krafti; það er t.d. augljóst að hún er líkamlega vel á sig komin. Hún hefur sterka tilfinningu fyrir tímasetningu í kómík og nýtir sér það til fullnustu. Það er áberandi að starf hennar í sjónvarpi hefur fært henni sjálfsöryggi og reynslu sem lyftir henni á hærra plan en áður. Hún má bara gæta sín að detta ekki ofan í alþekkt hlutverk - t.d. brá hún fyrir sig austur-evrópska hreimnum í atriði þar sem hún lék Norðmann.

Agnar Jón Egilsson hefur tekið stórstígum framförum á stuttum leikferli sínum. Hann á ennþá eftir að læra töluvert um kómíska snerpu og látbragð en leikur hans verður sífellt fjölbreyttari og öruggari og það var gaman að sjá hve vel hann stóð sig í þessari sýningu.

Búningar, leikmynd og leikmunir voru unnin af ótrúlega mikilli hugmyndaauðgi og nosturssemi. Auk þess eru búningar leikkvennanna hreint út sagt glæsilegir. Auknir möguleikar í ljósabúnaði skila sér í markvissari og stílhreinni ljósum, sem er fagmannlega beitt. Brynja Benediktsdóttir leikstjóri sýnir mikla útsjónarsemi við að nýta sem best takmarkað leikrýmið og hún spilar á hæfileika hvers um sig í hópnum til að skapa fjölbreytta sýningu sem er athyglisverðari og eftirminnilegri en aðrar slíkar hafa verið í seinni tíð. Hún ýtir undir von um að gamanmálahöfundar landsins snúi sér að viðfangsefnum sem meira púður er í - af nógu er að taka.

Sveinn Haraldsson