Í BÓK sinni "Eðli drauma" segir Matthías Jónasson þetta meðal annars um drauma og eðli þeirra: "Árið 1965, þegar nýr skilningur á svefnhegðun hafði rutt sér fyllilega til rúms, birtu dr.

Í BÓK sinni "Eðli drauma" segir Matthías Jónasson þetta meðal annars um drauma og eðli þeirra: "Árið 1965, þegar nýr skilningur á svefnhegðun hafði rutt sér fyllilega til rúms, birtu dr. Charles Fisher og samstarfsmenn hans við Mount Sinai Hospital í New York, rannsóknir sínar varðandi reglubundnar breytingar á kynfæri karla í svefni. Könnun þeirra tók þó til víðara sviðs, framar öllu lék þeim hugur á að leiða í ljós, hvort stinning getnaðarlimsins væri tengd hröðum augnhreyfingum eða þeim óháð. Til rannsóknar tóku þeir 17 heilbrigða karla á aldrinum 20-30 ára. Rannsóknarnætur urðu 27. Í heild komu fram 86 svefnstig með hröðum augnhreyfingum. - Fisher skirrist við að nefna þau draumstig, þótt hann bendi síðar á sennilegan samruna þeirra -; 60% þeirra fylgdu fullstinning kynfæris, 35% linjuleg stinning, en 5% sýndu enga stinningu. Fisher segir um könnun sína: "Ein af óvæntustu niðurstöðum okkar var sú, að stinning hófst og henni lauk í náinni tímasvörun við byrjun og endi hraðra augnhreyfinga. Þetta merkir að stinning kynfæris fylgi 95% svefnstiga með hröðum augnhreyfingum."

Í bók Matthíasar kemur einnig fram að fyrrnefnd rannsókn nái til hvítvoðunga í vöggu og því þurfi draumarnir ekki endilega að snúast um kynlíf, heldur geti þeir hjá öllum aldurshópum tengst einhverri vellíðunarkennd sem komi fram í draumum hraðra augnhreyfinga. Þessi kenning er athyglisverð í ljósi síaukinnar fíknar mannsins í tilbúin lyf til að komast í sæluvímu vellíðunar, því hún gefur í skyn að innan veggja eigin sjálfs sé þá eftirsóttu líðan að hafa í REM-draumi.

Draumar "Huldu"

1. Mér finnst ég vera stödd í stóru og fallegu húsi. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, breiðir stigar, súlur og gyllt er áberandi. Þarna eru samankomnir ættingjar mínir og nöfnur systur minnar eru áberandi. Mér finnst að ég eigi að syngja með annarri systur minni sem er söngkona. Ég er í hvítum kjól sem er að hluta gegnsær, hann er mjög fallegur og mér finnst ég falleg. Þegar tónleikarnir eru að hefjast, byrjar systir mín að rífast við mig og segir að ég eigi ekkert með að syngja með henni því ég syngi svo illa. Ég rýk út en er stoppuð nokkrum sinnum á leiðinni af ættingjum mínum sem segja mér að ég sé svo falleg og skilja ekkert í mér að fara. Þegar ég kem út stend ég á breiðum tröppum og fyrir neðan þær er torg og svo sjór, ég er ein og allt er óviðjafnanlega fallegt eins og maður ímyndar sér að hafi verið í Róm til forna. Allt í einu gengur að mér ungur fallegur maður og biður mig að giftast sér. Ég segi ekki neitt, brosi og geng í burtu. Allt í einu er ég stödd í rúmi með manni sem ég hef átt í sambandi við. Við erum nýbúin að elskast og ég tek eftir að mér hefur blætt í kjólinn minn fallega. Ég græt yfir því en fer svo og þvæ það og næ blóðinu úr. Mér léttir mikið en er hissa á því að þetta virðist ekki skipta vin minn neinu máli.

2. Mér finnst ég vera umsjónarmaður í sumarbúðum. Þar er allt fullt af börnum og sonur minn líka. Ég ætla í bað og finn skítugt baðherbergi, það er fullt af gluggum og mér finnst fólk vera að kíkja inn og hneykslast á mér. Ég fylli samt baðið og þvæ mér eitthvað, tek svo handklæði og vef því utan um mig. Ég finn gamla brúðarkjólinn minn sem er allur rifinn og er ég leið yfir því. Samt fer ég í hann, ríf allar blúndur af honum og sé þá að hann er bara fallegur án þeirra og ég tek mig vel út í honum. Hann er þó hálf gegnsær.

3. Inn í lófunum á mér byrja að vaxa viðbjóðslegir húðlitir stórir sveppir. Allt í einu koma rifur á þá og út úr þeim hvít blóm á stönglum sem vaxa hratt og detta svo af. Þessu fylgir mikill sársauki en á eftir eru lófarnir heilir.

4. Ég finn hatt sem ég hef skreytt með hári af mér (hafði gert það 10 árum áður) og er mjög glöð að finna hann. Ég tek hárið og festi það við höfuð mitt, það virkar mjög eðlilega og öllum sem ég hitti finnst þetta frábært (mér finnst þetta samt hálf hallærislegt) og þeir segja að það klæði mig miklu betur að vera með sítt hár. Mér finnst ég vera að hjóla um bæinn og það eru kosningar og mikið um að vera. Ég á eitthvað að hjálpa til við kosningarnar og eftir því sem líður á drauminn breytist liturinn á hárinu á mér úr dökku (minn litur) í næstum hvítt hár.

Ráðning

Þessir fjórir draumar snúast um þig á tímum þrenginga og uppgjörs. Fyrsti draumurinn lýsir persónu þinni sem þú er að pæla út í tengslum við eigið sjálf og tengingu við ytra umhverfi. Af þeirri skoðun má ráða að þú sért víðsýn (húsið) og opin (gegnsæi kjóllinn) manneskja með göfugar kenndir en nokkuð köld (lýsing á innviðum hússins) í háttum og ekki laus við öfund (nöfnur systur þinnar). Umhverfið (ættingjar) tekur þér vel en áttar sig ekki almennilega á því sem kalla mætti dynti (þú ætlar að syngja þótt þú getir það ekki) í fari þínu en þér finnst sjálfsögð framkoma, þar með talinn þótti (forn-Róm). Þá kemur fram í þessum draumi að þú hafir segulmagn á hitt kynið en samskipti þín við það séu ekki sem skyldi og þú botnir hreinlega ekki í hegðunarmunstri karlmanna.

Í öðrum draumi ertu í sjálfskoðun að finna út hvað fór úrskeiðis í ákveðnu máli og hvað þú getir gert til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Blúndurnar eða það sem þær spegla í huga þér virðist sá punktur sem þú leitar að. Einnig ertu að skilgreina ytri áhrif sem valda leiðindum í huga þér og þú vilt losna við.

Þriðji draumurinn er blanda af þáttum í fari þínu. Það er eins og þú viljir þröngva örlögunum fram á við svo allt verði gott og fínt strax en ekkert pex og puð. Svo talar hvíta blómið sem vex um gefandi þátt í fari þínu sem þú getir ræktað, náir þú að hemja plöntuna og hlú að vexti hennar.

Fjórði draumurinn lýsir svo því andlega álagi sem þú ert undir um þessar mundir og hvernig þú vinnur þig í gegnum það. Þar ferðu sálförum (hjólið) og þegar þú lítur til baka (10 ár) kemstu að raun um að í reynd kaustu sjálf að feta þennan veg enda muntu þroskast mjög á þeirri leið, - sem var jú ætlunin?

Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til: Draumstafir Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík