Þorsteinn Eggertsson fjöllistamaður hlaut fyrr á þessu ári verðlaun fyrir skopteikningar á alþjóðlegri listahátíð í Tryklandi. Sveinn Guðjónsson ræddi við listamanninn um ferðina til Tyrklands og alþjóðleg tækifæri fyrir íslenska teiknara.

"ÉG HEF átt nokkrar myndir á Heimssýningu á verkum skopmyndateiknara á vegum Alþjóðasambands hugvitsmanna. Sú sýning hefur farið um víða veröld síðan 1997 og er enn á ferðinni. Þar er ég eini fulltrúi Íslands," sagði Þorsteinn Eggertsson fjöllistamaður er hann var spurður um tildrög þess að hann tók þátt í alþjóðlegri listahátíð í Ankara í Tyrklandi, þar sem hann vann til verðlauna fyrr á þessu ári. "Sigurður S. Bjarnason, fulltrúi Íslands hjá samtökunum, benti þeim á mig. Þeir urðu forvitnir og ég sendi þeim nokkrar myndir.

Seint á síðasta ári barst mér bréf frá Tyrklandi þar sem mér var boðið að taka þátt í þessari alþjóðlegu listahátíð sem teiknari fyrir hönd Íslands. Forráðamenn tyrknesku listahátíðarinnar höfðu séð skopmyndasýningu Alþjóðasambands hugvitsmanna og líkaði greinilega við myndir mínar. Á þeirri sýningu eru einnig teikningar eftir norska, danska, sænska og finnska teiknara - en þeir völdu mig einan frá Norðurlöndunum til að sýna á tyrknesku listahátíðinni."

Íslenskir teiknarar velkomnir

Ég fór til Ankara í maí og var tekið þar með kostum og kynjum; veislur, gleðskapur og skemmtanir frá morgni til kvölds í heila viku og allt frítt. Þar aflaði ég mér nokkurra mikilvægra sambanda, til dæmis við prófessor John A. Lent frá Bandaríkjunum, en hann sérhæfir sig í menningu skopteiknara (cartoon culture) og vill gera íslenskum skopmyndatímaritum skil í tímariti sínu.

Ennfremur hitti ég aðalritara FECO (Sambands evrópskra skopteiknara), Peter Nieuwendijk frá Hollandi. Hann hefur boðið mér á nokkrar skopteiknarahátíðir víðs vegar um Evrópu á næstu misserum. Hann bað mig reyndar að safna saman íslenskum skopmyndateiknurum; atvinnuteiknurum sem hafa áhuga á að víkka aðeins út sjóndeildarhring sinn, með því að sýna erlendis eða ná sambandi við útgefendur, umboðsmenn og annað málsmetandi fólk um víða veröld. Ég sagðist búa í landi þar sem íbúafjöldinn væri innan við þrjú hundruð þúsund manns og þar sem ekki væri löng hefð fyrir gerð skopmynda. En hann virðist svo sannfærður um að mér takist þetta að ákveðið hefur verið að opnuð verði sérstök sýning á verkum íslenskra skopmyndateiknara á listahátíðinni í Ankara næsta vor.

Skemmtilegt fólk, skopteiknarar

Meðal gesta utan Evrópu á sýningum skopmyndateiknaranna voru Ares frá Kúbu, stórskemmtilegur teiknari og margverðlaunaður í bak og fyrir, prófessorarnir Erdinc Sayan frá Tyrklandi og John A. Lent frá Bandaríkjunum. Þeir síðarnefndu héldu báðir fyrirlestra á hátíðinni og í máli beggja kom fram að þeir telja skopteikningar vera eitt athyglisverðasta form myndlistar nú á dögum. Sayan benti á að ekkert almennilegt dagblað gæti verið án eigin skopteiknara, enda væru þeir oft og einatt áhrifaríkari þjóðmálagagnrýnendur en pennaliprustu menn. John A. Lent benti hins vegar á að ýmislegt sem áður tilheyrði lágmenningu væri nú orðið að hámenningu, svo sem það athyglisverðasta í poppmúsík, skopmyndagerð og grafískri hönnun.

Þáttur skopteiknara á hátíðinni hófst 7. maí með opnun heildarsýningar. Þar blasti teikning mín, Live Life, við á áberandi stað um leið og gengið var í salinn. Þarna voru saman komnir teiknarar víða að úr Evrópu og frá fleiri löndum. Ég tók fljótlega eftir því að þessir menn áttu auðvelt með að kynnast og samlagast. Þeir gerðu grín að öllum og öllu, dreyptu á bjórnum sínum og teiknuðu skrípamyndir hver af öðrum. Sjálfur varð ég fyrir barðinu á kímni þeirra af og til og á nú heila tylft mynda sem þeir teiknuðu af mér en auðvitað teiknaði ég myndir af þeim í staðinn. Við áttum fullt í fangi með að fara þvert og endilangt um borgina til að vera viðstaddir opnanir sýninga. Svo var snætt á virðulegustu stöðum og allt gert til að okkur liði sem best. Meðal þeirra sem styrkja þessa listahátíð eru Evrópusambandið og Evrópusamband skopteiknara sem Ísland verður væntanlega aðili að innan tíðar."

Verðlaun og viðurkenningar

"Svo var það einn daginn að öllum skopmyndateiknurunum á hátíðinni var stefnt saman í einn sal. Hverjum okkar var gert að teikna skopmynd og var viðfansefnið vísindaskáldskapur. Við fengum níutíu mínútur til verksins. 26 mættu til leiks og við hófumst handa.

Hver teiknari gerði aðeins eina mynd og að níutíu mínútunum liðnum var þeim öllum raðað upp og sýningargestum var leyft að gefa þeim stig. Meðal dómaranna voru blaðamenn, listgagnrýnendur og venjulegir sýningargestir. Hver þeirra fékk litla brúna plötu til að setja á þá mynd sem henni eða honum líkaði best við. Og þegar upp var staðið hafði ég fengið fleiri stig en flestir aðrir. Í ljós kom að aðeins tveir höfðu fengið fleiri stig en ég, enda fékk ég þriðju verðlaun. Í leiðinni fékk ég einnig viðurkenningu sem fyrsti fulltrúi Íslands eða Norðurlanda á listahátíð skopmyndateiknara. En ræðan var flutt á tyrknesku þannig að ég skildi ekki orð.

Ekki var nóg með að ég fengi þarna verðlaun, heldur lýsti framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Nezi Danyal, því yfir að hann vildi fá sérstaka íslenska skopteikningasýningu til Ankara á næsta ári. Hann benti mér jafnframt á að ég þyrfti að stofna sérstakt skopteiknarafélag á Íslandi. Það ætti ekki að verða mikill vandi þar sem hér á landi leynast mun fleiri með hæfileika í þessa átt en margan grunar.

Það er töluvert í húfi að svona sýning verði sett upp í Ankara árið 2000. Henni verður ekki aðeins gerð skil í tyrkneskum fjölmiðlum, heldur fer hún því næst til ýmissa borga í Evrópu og á eftir að fá umfjöllun þar. Svo má ekki gleyma því að meðal þeirra sem sækja svona sýningar eru menn sem eru í viðskiptahugleiðingum og vilja ýmist versla við teiknarana eða koma þeim á framfæri."

Þorsteinn Eggertsson hefur víða komið við. Hann er teiknari, blaðamaður og rithöfundur, en þekktastur er hann líklega sem söngtextahöfundur. Hann hefur árlega átt ljóð í enskum ljóðasöfnum síðan 1996. Þegar hann bjó í Dublin á Írlandi á árunum 1995 og 1996 sendi hann ljóð í enska ljóðakeppni, komst í úrslit og hefur verið beðinn um ljóð í bækur sem Alþjóðasamband ljóðskálda gefur út. Í sumar kom út bókin Honoured Poets (Heiðruð ljóðskáld) á þeirra vegum. Þar er ljóð eftir Þorstein ásamt stuttu æviágripi. Æviágrip hans er einnig að finna í eftirtöldum enskum bókum (sem allar eru gefnar út af Alþjóðlegu ættfræðistofnininni í Cambridge á Englandi): Authors And Writers Who's Who 1997. Authors And Writers Who's Who 1999. Outstanding People of The Twentieth Century (Framúrskarandi fólk tuttugustu aldar). Og á næsta ári: 2000 Outstanding Writers of the 20th Century (2000 framúrskarandi rithöfundar tuttugustu aldarinnar).

"Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna mín er getið í þessum bókum," svarar Þorsteinn aðspurður hvernig á þessu stendur. "Kannski er það vegna þess að ég varð fyrstur Íslendinga til að skrifa skáldsögu á ensku og fá hana gefna út á Englandi. Kannski er það vegna þess að ég er eini Íslendingurinn á Frægðarsafni skálda, "The International Poetry Hall of Fame", á veraldarvefnum á vegum Alþjóðasambands skálda. Og kannski er það vegna þess að ég hef fengið fleiri söngtexta gefna út eftir mig á hljómplötum en aðrir menn á Norðurlöndum."