BILL Clinton Bandaríkjaforseti hefur lagt fram tillögur um reglugerðir sem koma eiga í veg fyrir að rafrænar sjúkraskýrslur lendi í höndunum á vinnuveitendum, sölumönnum og ýmsum öðrum. Hvatti forsetinn Bandaríkjaþing til þess að tryggja að viðkvæmustu upplýsingar um sjúklinga væru verndaðar.

"Allir Bandaríkjamenn eiga rétt á að geta verið þess fullvissir að sjúkraskýrslur þeirra lendi aldrei í höndum rangra aðila," sagði Clinton við athöfn á embættisskrifstofu forsetans í Hvíta húsinu. Tillögur forsetans ná til allra rafrænna sjúkraskýrslna og allra sjúkratrygginga.

Stóri bróðir

Hann sagði að ný tækni hefði verið misnotuð af vinnuveitendum og markaðsfyrirtækjum með sömu nákvæmni og Stóri bróðir gerði í framtíðarskáldsögunni 1984, eftir Orwell. "Bandaríska þjóðin hefur áhyggjur af þessu, og það með réttu," sagði Clinton. "Bandaríkjamenn ættu aldrei að þurfa að hafa áhyggjur af því að vinnuveitendur þeirra séu með nefið niðri í því hvaða lyf þeir taka eða hvaða sjúkdómar hafa hrjáð þá."

Skriflegs leyfis krafist

Samkvæmt tillögunum verða settar hömlur á notkun og birtingu heilsufarsupplýsinga sem eru sendar og geymdar í tölvum. Núverandi lög í Bandaríkjunum um vernd heilsufarsupplýsinga eru mjög mismunandi frá einu ríki til annars. Engar alríkisreglur kveða á um að ekki megi sýna vinnuveitendum upplýsingar um einkamál, selja þær lyfjafyrirtækjum eða ræða þær á skrifstofum tryggingafélaga.

Samkvæmt tillögunum mættu læknar, sjúkrahús eða sjúkratryggingafélög ekki greina frá upplýsingum um sjúklinga í öðru skyni en er varðar meðferð og greiðslur án fengins skriflegs leyfis. Eins og málum er nú háttað má veita slíkar upplýsingar fjármálastofnunum, markaðsfyrirtækjum og öðrum án fengins samþykkis sjúklings.

Takmarkaðar upplýsingar

Þegar heilsufarsupplýsinga yrði krafist yrðu heilbirgðisstofnanir að takmarka eins og kostur væri þær upplýsingar sem veittar væru í stað þess að veita allar upplýsingar um viðkomandi sjúkling. Þegar til dæmis væri um að ræða greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu yrðu engar upplýsingar um veitta meðferð sendar til greiðslukortafyrirtækja eða banka. Þá kveða tillögurnar á um harðar refsingar, sektir og/eða fangeslsisvist, fyrir að veita upplýsingar í heimildaleysi. Sjúklingar fengju ennfremur rétt til að sjá og afrita skýrslur sínar og krefjast leiðréttinga á misfærslum. Lögreglu yrði óheimilt að leggja hald á heilsufarsupplýsingar án þess að fá fyrst lagaheimild, t.d. frá dómara.