Spurning: Ég er með stöðugan fótakulda, einkum ef ég ligg út af og fæ þá oft sinadrátt. Sigg myndast á hælum og síðan sprungur í húð, sem stundum blæðir úr, enda þótt ég reyni að raspa og bera krem á. Hvað er að og hvað er til ráða?
Spurning: Ég er með stöðugan fótakulda, einkum ef ég ligg út af og fæ þá oft sinadrátt. Sigg myndast á hælum og síðan sprungur í húð, sem stundum blæðir úr, enda þótt ég reyni að raspa og bera krem á. Hvað er að og hvað er til ráða? Tekið skal fram að ég er 20 kg of þungur (104 kg), hreyfi mig lítið, er með háþrýsting og hef of mikið kólestról, en við hvoru tveggja tek ég lyf. Auk þess reyki ég.

Svar: Bréfritari er með þrjá af helstu áhættuþáttum æðakölkunar, háþrýsting, hátt kólesteról í blóði og hann reykir. Ofan á þetta bætist hreyfingarleysi og of mikil líkamsþyngd sem einnig auka hættu á æðakölkun. Óneitanlega dettur manni strax í hug að bréfritari kunni að vera með æðakölkun og lélega blóðrás niður í fætur. Þetta er alvarlegt mál og ástæða til að fara til læknis og láta rannsaka það nánar.

Hár blóðþrýstingur, of mikil blóðfita, offita, hreyfingarleysi og reykingar fara ákaflega illa saman og eru ávísun á vanheilsu ef ekkert er að gert. Háum blóðþrýstingi og miklu kólesteróli í blóði er hægt að halda í skefjum með mataræði og lyfjum. Ef bréfritari gæti hætt að reykja og grenntist, þó ekki væri nema um nokkur kg, er ég viss um að honum liði miklu betur auk þess sem það hefði mikil áhrif á heilsu hans til lengri tíma litið.

Hæfileg hreyfing er líka nauðsynleg og getur verið mikilvægur þáttur í því að grennast. Þetta er vissulega mikið átak og þegar fólk hættir að reykja er talsverð hætta á að það þyngist, en hafa ber í huga að mikið er í húfi. Hægt er að fá aðstoð við þetta allt saman, bréfritari er nú þegar á meðferð við háþrýstingi og of mikilli blóðfitu, hann getur farið á námskeið til að hætta að reykja, fengið ráðleggingar um mataræði og farið í líkamsþjálfun af einhverju tagi. Læknir hans getur hjálpað til við þetta allt en hann verður sjálfur að vilja gera það sem þarf til að bæta líðan sína og heilsu.

Ef fótakuldinn stafar af æðakölkun getur þurft að gera aðgerð á æðum en þetta gæti líka lagast við að hætta reykingum og léttast; nikótín herpir saman æðar og getur þannig valdið blóðrásartruflunum. Varðandi húðvandamálin á fótum gæti verið ráð að fara á fótsnyrtistofu.

Meira um nætursvita

Kona hringdi og sagði sögu sína af nætursvita. Hún sagðist hafa verið illa haldin af honum og reyndar svitnað við minnstu áreynslu. Einhverju sinni nú í sumar var henni sagt að hana vantaði kalk. Hún fór í apótek, keypti sér kalk með D-vítamíni og fór að taka það inn eins og sagði fyrir um á glasinu. Systir hennar, sem ekki var skárri af nætursvitanum, gerði slíkt hið sama. Hún sagði að upp úr þessu hefði ástandið smám saman skánað hjá þeim systrum báðum og væri nú svo að segja úr sögunni. Hana langaði að koma þessu á framfæri.

Svar: Þetta er nýtt fyrir mér en ef það hjálpar einhverjum er um að ræða einfalt og gott ráð. Við neyslukannanir hér á landi hefur komið í ljós að margir fá of lítið af D-vítamíni og kalk er nauðsynlegt steinefni, sérstaklega fyrir konur. D- vítamín er einfalt að fá í lýsi og kalktöflur fást í matvörubúðum og lyfjabúðum.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok. Fax 5691222. Einnig geta lesendur sent fyrirspurnir sínar með tölvupósti á netfang Magnúsar Jóhannssonar: elmagÊhotmail.com.